Home / Fréttir / Tölvuárásin: Trump beinir athygli að Kínverjum

Tölvuárásin: Trump beinir athygli að Kínverjum

53477093_303

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Kínverja hugsanlega standa að baki meiriháttar tölvuárás á netkerfi bandarískra ráðuneyta og ríkisstofnana auk netkerfa víða um heim. Þessi ummæli stangast á við það sem Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir en hann telur „næsta augljóst“ að Rússar séu að baki árásinni.

Pompeo lét þessi orð falla í sjónvarpsþætti föstudaginn 18. desember en laugardaginn 19. desember sagði Trump á Twitter „Rússar eru alltaf nefndir fyrst þegar eitthvað gerist“ vegna þess að fjölmiðlar óttist að segja að hugsanlega séu Kínverjar á ferð. Hann nefndi ekki neitt sem vekti grun sinn um hlut Kínverja.

Pompeo sagði á föstudaginn að ráðist hefði verið á fyrirtæki og ríkisstofnanir um heim allan með því að nota forrit þriðja aðila til að koma fyrir merki í kerfi þeirra. Hann sagði allt benda til aðildar Rússa að innbrotinu en fráfarandi ríkisstjórn Trumps hefði ákveðið að þegja um málið í nokkra daga til að leyfa rannsakendum að kanna það.

Rússar hafa þegar neitað aðild að málinu og Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, hafnar öllum ásökunum vegna þess.

SolarWinds, netöryggisfyrirtæki í Texas, skýrði mánudaginn 14. desember frá því að 18.000 viðskiptavinir vinsæls netstjórnarforrits þess, Orion, hefðu orðið fyrir árás tölvuþrjóta án þess vita af því. Árásin hefði verið gerð af erlendu ríki.

Brad Smith, stjórnarformaður Microsoft, tilkynnti föstudaginn 18. desember að um 80% viðskiptavina fyrirtækisins sem hefðu orðið fyrir árásinni væru í Bandaríkjunum. Hinir væru í Bretlandi, Belgíu, Kanada, Ísrael, Mexíkó, Spáni og Sameinuðu furstadæmunum.

Reuters-fréttastofan hafði eftir breskum öryggissérfræðingum að ráðist hefði verið á nokkra aðila í Bretlandi en ekki opinbera.

James Lewis, aðstoðarforstjóri US Center for Strategic and International Studies, sagði við AFP-fréttastofuna: „Umfangið er óvænlegt. Við vitum ekki heldur hvað skilið var eftir. Venjulega skilja þrjótarnir eitthvað eftir svo að þeir geti komið aftur síðar.“

„Þetta verður löng ferð,“ sagði Dmitri Alperovitch, fyrrverandi yfirmaður tæknimála hjá netöryggisfyrirtækinu CrowdStrike, í samtali við AP-fréttastofuna. Endurhanna yrði kerfin. „Hreinsunin er aðeins fyrsta skref.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur áform um að loka tveimur ræðisskrifstofum sem bandaríska utanríkisráðuneytið heldur enn úti í Rússlandi, í Vladivostok og Jekaterinnurg. Þá verður sendiráðið í Moskvu eina starfsstöðin á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins í Rússlandi.

Tíu starfsmenn ráðuneytisins verða fluttir úr ræðisskrifstofunum til Moskvu en 33 staðarráðnir, rússneskir starfsmenn verða atvinnulausir.

Þessar breytingar eru sagðar til marks um að samskipti Rússa og Bandaríkjamanna versna enda er tilgangur Bandaríkjastjórnar ekki síst sá að auka öryggi embættismanna sinna í Rússlandi samhliða sparnaði.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …