Home / Fréttir / Tölvuárás gerð á vetrarólympíuleikanna

Tölvuárás gerð á vetrarólympíuleikanna

38853159_303

Sérfræðingar Suður-Kóreustjórnar vinna að því að upplýsa hvernig tölvuþrjótum tókst að trufla setningarathöfn vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang föstudaginn 9. febrúar. Þráðlaust innra kerfi og netsamband var rofið. 

Mark Adams, talsmaður alþjóðaólympíunefndarinnar, sagði að allt benti til árásar á netkerfið en nú hefðu varnir þess verið auknar. Hann sagðist ekki ætla að lýsa atvikinu. Það yrði ekki gert á þessu stigi en nauðsynlegar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að hindra frekari árásar. 

Sung Baik-you talsmaður s-kóresku skipulagsnefndarinnar sagði sunnudaginn 11. febrúar að öllu hefði verið kippt í lag. Vitað væri um undirrót vandans og vandræði sem þessi væru ekki óþekkt en í samráði við alþjóðaólympíunefndina yrði ekki greint frekar frá eðli þeirra. 

Í frétt DW segir að ýmis kerfi, þar á meðal internetið og sjónvarpsrásir, hefðu hrunið þegar setningarhátíðin var nýhafin eða klukkan 19.15 að staðartíma (11.15 ísl. tíma) föstudaginn 9. febrúar. Hafði ekki verið unnt að koma kerfunum í að fullu í rétt horf að morgni laugardags 10. febrúar.  

Vetrarleikarnir fara fram í aðeins 80 km fjarlægð frá Norður-Kóreu. Oft hafa Norður-Kóreumenn verið sakaðir um að beita sér fyrir tölvuárásum, má þar nefna WannaCry vírusinn sem fór um heim allan í fyrra. Norður-Kóreumenn segja allar ásakanir í sinn garð vegna árásarinnar nú fásinnu. Minnt er á að ekki hefur verið saminn friður milli Suður- og Norður-Kóreumanna síðan Kóreustríðið var háð 1950-53. Tæknilega séð ríkir því enn stríðsástand á Kóreuskaga. 

Rússar hafna einnig ásökunum um að þeir hafi gert tölvuárás á kerfi vetrarólympíuleikanna. Grunsemdir í garð Rússa má rekja til þess að þeim er bönnuð þátttaka í leikunum. Sannað er að þeir hafa skipulega misnotað lyf til að auka getu íþróttamanna sinna. 

Sérfræðingar benda á að leikarnir séu spennandi skotmark fyrir tölvuþrjóta sem vilja sanna hæfni sína og slá sér upp meðal jafningja með því að geta stært sig af því að brjótast gegnum tölvuvarnir þeirra. 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …