Home / Fréttir / Tólf ríki stilla saman varnarstrengi í Norður-Evrópu

Tólf ríki stilla saman varnarstrengi í Norður-Evrópu

Yfirmenn herja 11 Norður-Evrópuríkja auk yfirmanns Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna á fundi í Helsinki september 2021.

Bandaríska Evrópuherstjórnin (USEUCOM) og herstjórn Finnlands boðuðu sameiginlega til fundar yfirmanna herja 11 Norður-Evrópuríkja í Helsinki dagana 29. og 30. september 2021.

Herforingjarnir ræddu stöðu öryggismála í Norður-Evrópu og á Eystrasaltssvæðinu. Markmið fundarins var að stuðla að nánara samstarfi herstjórna landanna og gagnkvæmum skilningi á viðfangsefnum herja þeirra.

USEUCOM og finnska herstjórnin gáfu út sameiginlega yfirlýsingu að fundinum loknum þar sem segir að geópólitískt vægi norðurslóða og Eystrasaltsins aukist samhliða auknu hnattrænu og strategísku mikilvægi þessara svæða. Með æfingum og samskiptum herja ríkjanna á svæðunum styrkist samhæfing þeirra á öllum sviðum og hæfni til þess að koma fram sem sameinaður liðsafli þurfi að bregðast við hættuástandi.

Bandaríski flughershöfðinginn Tod D. Wolters, yfirmaður USEUCOM, sagði að ekki mætti vanmeta strategískt mikilvægi norðurslóða og Eystrasaltssvæðisins.

Timo Kivinen, hershöfðingi, yfirmaður finnska hersins, sagði fundinn leiða til meiri vitneskju um stöðu öryggismála í nágrenni landanna og þar hefði gefist færi á að kynna öryggissjónarmið frá finnskum sjónarhóli.

Fundinn sátu yfirmenn herafla frá 11 Evrópulöndum auk Bandaríkjanna: Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Hollandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Póllandi, Svíþjóð og Þýskalandi.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …