Home / Fréttir / Tíu áhrifamestu ræðumennirnir í hópi þjóðarleiðtoga

Tíu áhrifamestu ræðumennirnir í hópi þjóðarleiðtoga

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.

Sérfræðingar frá Development Academy í Bretlandi vörðu 12 mánuðum til að rannsaka hæfileika þjóðarleiðtoga til að ná til fólks með ræðuflutningi og framkomu sinni. Þeir kynntu sér meira en 100 klst. af efni frá blaðamannafundum, ræðuflutningi og opinberum athöfnum.

Á grunni þessara rannsókna drógu sérfræðingarnir saman lista yfir 10 áhrifamestu ræðumennina.

  1. Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.

Hún er sögð leiðtogi sem nái miklum árangri með því að sýna samkennd. Hún hiki ekki við að brjóta gegn því almenna viðhorfi að veiklyndi felist í að láta í ljós tilfinningar, hún nái mjög góðu sambandi við fólk með mjúkum, tilfinningalega þroskuðum málflutningi. Hún hafi einlægt, agað áhrifavald, hún sé góð og samúðarfull án þess að víkja sér undan að takast á við erfið mál og þar með sé hún mjög hrífandi og traustvekjandi ræðumaður.

  1. Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Mikið lof hafi verið borið á Angelu Merkel fyrir framgöngu hennar vegna COVID-19-faraldursins og með réttu sé henni hrósað fyrir að koma öllu vel til skila til almennings. Hún sé skorinorð, róleg og yfirveguð. Hún skapi traust og beri með sér mikla reynslu, standi að mestu hreyfingarlaus og tali í jafnri tónhæð.

  1. Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands.

Ýmsar ástæður eru taldar við því að dást megi að ræðumennsku Modis. Hann nái vel til áheyrenda sinna, leggi sig fram um að ná augnsambandi og líkamstjáning hans sé jákvæð og styðji við málflutning hans. Hann hagi einnig tónhæð raddar sinnar á þann veg að haldi áhuga áheyrenda.

  1. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.

Trudeau er sagður mjög skýr ræðumaður sem geri honum auðvelt að ná til fólks. Hann sé stundum kíminn og heillandi, hann sé alltaf mjög vel kynntur sem auðveldi honum framgöngu hans. Hann sé auðskilinn, tónn hans og hraði sé góður og af honum stafi traust.

  1. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.

Minnt er á að Nicola Sturgeon hafi hlotið mikið lof fyrir framgöngu sína vegna COVID-10-faraldursins eins og skiljanlegt sé. Hún sé skýr, róleg og samúðarfull. Hún óttist ekki að sýna hörku eða tilfinningar og hafi mikla kímnigáfu. Hún sé mjög ekta og setji ekkert á svið.

  1. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Hún sé hún sjálf eins og Jacinda Ardern, höfði til fólks en sé jafnframt skýr og ákveðin. Hún leggi sig fram um að ná til fólks. Hafi til dæmis efnt til blaðamannafundar til að svara spurningum barna.

  1. Emmanuel Macron, forseti Frakklands.

Ræðustíll Macrons er sagður sannfærandi, hrífandi og kurteis en sumum finnist hann dálítið formlegur. Hann svari beinum spurningum vel og njóti sín mjög fyrir framan fjölda áheyrenda. Ræðuflutningur hans einkennist af miklu jafnvægi milli þess skýra boðskapar sem hann flytji og umhyggjunnar og virðingarinnar sem hann sýni.

  1. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Sagt er að norski forsætisráðherrann hafi fylgt fordæmi þess danska og bannað fullorðnum blaðamönnum að sækja fréttamannafund þar sem rætt var um ótta barna. Hún hafi vikið frá hefðbundnum rökum sérfræðinga og þess í stað sýnt ungum áheyrendum samkennd og leitast við að auka öryggiskennd þeirra. Hún hafi ekki talað niður til þeirra.

  1. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.

Sagt er að Conte hafi þrátt fyrir erfitt ár á Ítalíu tekist með sjónvarpsávörpum sínum að blása kjark í þjóð sína og draga úr ótta hennar. Hann noti persónufornöfn á þann veg að sameini og auki mjög þjóðarsamstöðu á óvissutímum. Hann sé rólegur og skorinorður en sýni jafnframt samkennd vegna þess sem Ítalir megi þola.

  • Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu.

Sagt er að ástralska forsætisráðherranum hafi tekist einstaklega vel að ávinna sér virðingu eftir vandræði hans vegna skógareldanna miklu í fyrra. Þetta megi að stórum hluta rekja til þess hve góðu sambandi hann hafi náð við fólk í COVID-19-faraldrinum. Hann sé opin, tilfinningasamur og berskjaldaður þegar hann ávarpi Ástrali, sýni kjósendum að hann deili sársaukanum með þeim.

Mega gera betur

Samhliða því sem þessum þjóðarleiðtogum var raðað á þennan hátt nefndu sérfræðingarnir til sögunnar tvo karlmenn sem þyrftu að bæta ræðumennsku og framkomu sína:

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta.

Minnt er á að Boris Johnson hafi tileinkað sér einstakan ræðustíl allan sinn pólitíska feril. Í stað þess að nýta sér þagnir muldri hann og tuldri. Þá sé hann þekktur fyrir að grípa oft til svo dularfullra tilvísana að enginn botni í hvert hann sé að fara. Sem forsætisráðherra hafi hann þó tekið sig verulega á undanfarna mánuði, orðin þvælist ekki eins mikið fyrir honum og áður og muldrið hafi minnkað. Orð hans hafi öðlast meiri þunga með embættinu. Þrátt fyrir þetta hafi Íhaldsflokkurinn nýlega tilkynnt að kannað sé hvort auka megi almennan áhuga á daglegum blaðamannafundum Boris Johnson með því að ráða sérstakan talsmann til að eiga samskipti við þjóðina fyrir hönd forsætisráðherrans.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.

Sagt er að Trump hafi jafnan fylgt þeirri stefnu að „hugsa upphátt“ þegar hann taki til máls opinberlega. Þetta hafi ekki breyst eftir að hann varð forseti í janúar 2017. Hann bregðist við spurningum án þess að gefa sér tíma til að hugsa og það bögglist síðan fyrir honum að veita ígrundað, viðeigandi svar. Hann hoppi oft yfir í annað umræðuefni án þess að ljúka hinu, áheyrendur tapi þræði og áhuga eða verði reiðir. Ofhlaðið líkingamál hans rugli marga og hann sé stundum illmálgur.

Sem forseti hafi Donald Trump lítið lagt sig fram um að bæta ræðustíl sinn. Það hafi Boris Johnson þó gert með augljósum árangri eftir að hann varð forsætisráðherra

Sigurvegari áratugarins

Sérfræðingar Development Academy voru einnig beðnir að nefna þann sem þeir teldu þann þjóðarleiðtoga síðasta áratugar sem hefði haft mesta hæfileika til að flytja mál sitt opinberlega. Nær einróma nefndu þeir Barack Obama, 44. forseta Bandaríkjanna.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …