Home / Fréttir / Tímamótagrein norrænna ráðherra vegna tímamótaæfingar

Tímamótagrein norrænna ráðherra vegna tímamótaæfingar

Bandarísk F-16 orrustuþota afísuð á Kallax flugvelli í Svíþjóð miðvikudaginn 24. október 2018 vegna þátttöku í Trident Juncture.
Bandarísk F-16 orrustuþota afísuð á
Kallax flugvelli í Svíþjóð miðvikudaginn 24. október 2018 vegna þátttöku í Trident Juncture.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, Claus Hjort Frederiksen, varnarmálaráðherra Danmerkur, Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, birtu sameiginlega grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. október undir fyrirsögninni: Trident Juncture 2018: Varnir norræna svæðisins.

Greinin markar tímamót eins og þátttaka Finna og Svía í þessari miklu varnaræfingu. Hér birtist hún í heild:

Þessa dagana taka fimmtíu þúsund hermenn frá 31 landi þátt í stórri æfingu sem ætlað er að prófa samstarfshæfni okkar. Æfingin Trident Juncture 2018 er stærsta varnaræfing Atlantshafsbandalagsins í nokkra áratugi. Hún sýnir fram á endurnýjaðar áherslur bandalagsins á sameiginlegar varnir aðildarríkjanna og landfræðipólitískt mikilvægi Norðurlandanna fyrir norðanverða Evrópu.

Trident Juncture veitir Atlantshafsbandalaginu einstakt tækifæri, sem og samstarfsríkjum þess, Svíþjóð og Finnlandi, til að sannreyna samstarfsgetu okkar við norrænar veðurfarsaðstæður á svæðum sem spanna allt frá hrjóstrugu landslagi okkar til Norður-Atlantshafsins og Eystrasaltsins. Þetta er mikilvægt. Ekki aðeins vegna þess að það eflir varnargetu okkar, heldur eflir það einnig tengsl ríkja okkar og sendir skýr skilaboð til hvers þess sem hugleiðir beitingu hervalds til að ná markmiðum sínum.

Engin hernaðarógn steðjar að Norðurlöndunum

Við sjáum enga hernaðarógn sem steðjar að Norðurlöndunum í dag. Eftir sem áður lifum við á ófyrirsjáanlegum og óöruggum tímum. Rússland gerir sig meira gildandi og hefur sýnt fram á bæði vilja og getu til að beita herafli til að styðja við hernaðarleg markmið sín. Netárásir og villandi upplýsingar ýta undir pólitískar öfgar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem síðan valda álagi á lýðræðislegar stofnanir samfélagsins og getu okkar til að leita málamiðlana. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi hefur breytt því hvernig við hugsum um öryggismál, fólksflutningar eru líkast til orðnir það málefni sem skiptir fólki mest í fylkingar og loftslagsbreytingar hafa áhrif á öll þessi málefni með ófyrirsjáanlegum hætti.

Sterkari saman

Við erum tengd gegnum landfræðilega legu, sögu okkar, menningu og gildi, við berum sameiginlega ábyrgð á að varðveita frið og stöðugleika í okkar heimshluta. Við trúum staðfastlega á samræðu, gegnsæi og fyrirsjáanleika í skipan alþjóðamála sem byggir á alþjóðalögum og bindandi samningum. Því miður deila ekki öll ríki þessum gildum. Þess vegna er nauðsynlegt að búa að trúverðugri hernaðargetu. Danmörk, Noregur og Ísland eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu, en Svíþjóð og Finnland standa utan þess. Með sameiginlegum æfingum – og í gegnum Atlantshafsbandalagið – bætum við getu þessara nágrannaþjóða til samstarfs, ef einhvern tíma kemur til þess að það verði nauðsynlegt. Ekki í staðinn fyrir Atlantshafsbandalagið, heldur til viðbótar við það.

Þrettán þúsund norrænir hermenn

Framlag norrænu ríkjanna til Trident Juncture æfingarinnar er umtalsvert þar sem rúmlega þrettán þúsund hermenn og mikill fjöldi borgaralegra starfsmanna tekur þátt. Sem dæmi um fyrirtaks norræna samvinnu munu sveitir úr landher Finna starfa sem hluti af sænskri herdeild og danskar herþyrlur munu styðja við norsku herdeildina. Atlantshafsbandalagið og herafli samstarfsríkjanna Finnlands og Svíþjóðar mun nota herstöðvar og flugvelli í öllum norrænu ríkjunum, en hið hernaðarlega mikilvæga Ísland mun gegna hlutverki sem miðlægt söfnunarsvæði og gátt fyrir liðs- og birgðaflutninga þátttökuríkjanna yfir Atlantshafið.

Aukin varnarsamvinna Norðurlandanna og bandalagsríkjanna

Þessi mikla þátttaka Norðurlandanna í Trident Juncture-æfingunni er árangur markvissrar sameiginlegrar viðleitni okkar til að bæta norrænt varnarsamstarf. Við höfum aukið sameiginlegar æfingar og þjálfun. Við skiptumst á loftferðaeftirlitsupplýsingum og höfum auðveldað skjóta liðs- og birgðaflutninga milli ríkja okkar með því að fjarlægja stjórnsýslulega flöskuhálsa sem stóðu í vegi hernaðarlegs hreyfanleika. Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið hafa tekið upp svipaða aðferðafræði sem byggir á árangri norrænu ríkjanna.

Norræna nágrannavaktin

Við kunnum að búa við mismunandi aðstæður í varnarmálum, en við erum öll nágrannar í norðri. Öryggisvá á norðursvæðum myndi hafa áhrif á okkur öll og geta okkar til að leysa úr slíkri vá verður aðeins jafn góð og samstarfsgeta okkar – saman og með vina- og bandalagsþjóðum okkar. Þess vegna er Trident Juncture-æfingin svo mikilvæg. Og þess vegna ættu menn að láta sig norrænt samstarf miklu skipta.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …