Grein þessi eftir JULIANNE SMITH JULIANNE SMITH JULIANNE SMITH og RACHEL RIZZO birtist á vefsíðunni Defense One 28. júní 2017.
Nú þegar Donald Trump forseti hefur loksins lýst blessun yfir 5. gr. Atlantshafssáttmálans og dregið úr hugarangri manna beggja vegna Atlantshafs er tímabært að bandalagið láti hendur standa fram úr ermum. Auk þess að beina athygli að útgjöldum til varnarmála, baráttu við hryðjuverkamenn og auknum fælingarmætti gagnvart Rússum ættu Jim Mattis varnarmálaráðherra og starfssystkini hans á fundi sínum í Brussel nú í vikunni að huga að svæði sem hefur verið að mestu afskiptalaust frá lokum kalda stríðsins: Norður-Atlantshafi.
Hvers vegna Norður-Atlantshafi? Umsvif Rússa á Norður-Atlantshafi, einkum á svæðinu milli Grænlands, Íslands og Bretlands – í GIUK-hliðinu – hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og hafa ekki verið meiri til þessa síðan í kalda stríðinu. Raunar má benda á að í flotastefnu Rússa frá 2015 er tekið fram að Atlantshafið sé hugsanlegt átakasvæði, ætti því engum að koma á óvart að þeir láti sérstaklega að sér kveða þar. Mark Ferguson, fyrrv. flotaforingi, sem var á sínum tíma æðsti yfirmaður flota Bandaríkjanna í Evrópu, sagði árið 2016 að hann hefði orðið vitni að þeirri undarlegu staðreynd að Rússar ykju ferðir kafbáta sinna um 50% á milli ára og þeir leggðu áherslu á herstjórnarlist sem væri reist á hraða og að koma öðrum í opna skjöldu. Síðan gerðist það einnig haustið 2016 að Rússar gerðu tilraun með ómannað neðansjávar farartæki sem getur flutt kjarnorkuvopn og ætlað er að skapa „víðfeðm geislavirk svæði sem leiða til lokunar þeirra fyrir hernaðarlegri, efnahagslegri eða annarri starfsemi“. Þetta vopn verður ef til vill ekki nothæft fyrr en um miðjan næsta áratug en bara vitneskjan um að gerð hefði verið tilraun með vopnið ætti að verða nóg til þess að rauð viðvörunarljós tækju að blikka innan NATO.
NATO er því miður sorglega illa undir það búið að takast á við verkefni af þessu tagi. Frá því snemma á öldinni og til þessa dags hefur NATO nær eingöngu fjallað um átök á landi og í lofti: þar má líta til styrjaldarinnar í Afganistan, aðfararinnar að Gaddafi í Líbíu og átakanna í Austur-Úkraínu þar sem nú ríkir þrátefli. Þetta hefur leitt til þess að flotastefna bandalagsins hefur dofnað og dregið úr þekkingu og hæfni varðandi flotamál innan bandalagsins. Þótt flotatstjórn bandalagsins hafi sinnt aðgerðum gegn sjóræningjum og veitt aðstoð vegna farandfólks á leið yfir Miðjarðarhaf eru þau verkefni ekki til samanburðar við önnur verkefni NATO undanfarin 25 ár. Til að hrinda í framkvæmd árangursríkri flotastefnu á Norður-Atlantshafi þarf að verða grundvallarbreyting á þankagangi innan bandalagsins.
Einnig krefst þetta breytinga á stefnu og viðbúnaði af hálfu einstakra NATO-ríkja, einkum þeirra sem eiga land að Norður-Atlantshafi. Því miður hafa mörg ríkjanna látið flota sína drabbast niður undanfarna tvo áratugi. Fyrr á þessu ári vöktu fimm fyrrverandi háttsettir foringjar innan breska flughersins athygli á að skortur Breta á flugvélum til að leita að rússneskum kafbátum á Norður-Atlantshafi auðveldaði Rússum að njósna um Treident-kjarnorkukafbátaflota Breta. NATO-þjóðirnar við Atlantshaf eiga miklu færri skip en fyrir 20 árum. Árið 1995 áttu þær um 100 freigátur nú eru þær í kringum 50. Bandaríkjamenn hafa til dæmis sent stærstan hluta 52 árásarkafbáta sinna til umdeildra svæða í Asíu-hluta Kyrrahafs.
Það berast þó einnig góðar fréttir. Bandaríkjamenn ætla að hefja kafbátaleitarflug með P-8 Poseidon-vélum frá flotaflugstöðinni í Keflavík á Íslandi sem var lokað árið 2006. Norðmenn hafa einnig tilkynnt að þeir ætli að kaupa nýja kafbáta og stækka flota eftirlitsflugvéla sinna á hafinu. Á sama tíma og þess sjást merki að einstök ríki átti sig á mikilvægi Norður-Atlantshafs ætti NATO að taka ákvarðanir um langtímastefnu varðandi svæðið og alhliða viðveru á vegum bandalagsins á því.
NATO verður að endurskoða flotastefnu sína sem var síðast uppfærð árið 2011. Þetta verður ekki auðvelt; það krefst framlags frá aðildarríkjum sem telja sig ef til vill ekki þurfa að eiga aðild að verkefnum í norðri. Með því að laga stefnu sína að breyttum aðstæðum mundi bandalagið viðurkenna flotaverkefni í stærra samhengi en gert var árið 2011 og aðgerðir vegna þeirra. Í nýju stefnunni fælist að ekkert eitt bandalagsríki bæri alla ábyrgð á sérgreindu sviði á svæðinu; skilgreint yrði hvers konar flotaárásir teldust leiða til stigmögnunar og áhersla yrði lögð á samvinnu við einkaaðila til að takast á við tölvuárásir og til að tryggja öryggi neðansjávarkapla.
Við verðum þó jafnframt að hafa hugfast að aukin hernaðarleg áhersla á Norður-Atlantshaf má ekki spilla fyrir heildarstefnu NATO í þágu allrar Evrópu. Bandalagsríki í suðri og austri glíma enn um fyrirsjáanlega framtíð við mikilvæg verkefni, þar má nefna straum farandfólks, óvissu í Mið-Austurlöndum og hættu á blönduðum hernaði Rússa í austurhluta Evrópu. Bandalagið verður að hafa burði til að bregðast samtímis og á virkan hátt við margvíslegum ógnum frá norðri til suðurs og austri til vesturs og í lofti, á landi og sjó. Frá því að NATO var stofnað árið 1949 hefur bandalagið sannað getu sína til að laga sig að aðstæðum, nú er þess enn einu sinni krafist af því.
Julianne Smith rannsóknarfélagi og stjórnandi á sviði hernaðarstjórnlistar hjá Center for a New American Security (CNAS) í Washington DC.
Rachel Rizzo vinnur við mótun herstjórnarstefnu hjá Brent Scowcroft Center on International Security við Atlantic Council í Washington DC. Hér lýsir hún eigin skoðun.