Home / Fréttir / Tímabær Varðbergsráðstefna um öryggismál Norðurlanda – Rússar senda eldflauga-korvettur inn á Eystrasalt

Tímabær Varðbergsráðstefna um öryggismál Norðurlanda – Rússar senda eldflauga-korvettur inn á Eystrasalt

 

Hér sést önnur eldflauga-korvettan sem nú er í rússneska Eystrasaltsflotanum.
Hér sést önnur eldflauga-korvettan sem nú er í rússneska Eystrasaltsflotanum.

Varðberg efnir í dag klukkan 14.00 til 17.00 til málþings í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins um ný viðhorf í öryggismálum Norðurlanda. Þar tala sérfræðingar í varnarmálum frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Sífellt berast fréttir sem staðfesta að mikil breyting hefur orðið í öryggismálum í Norður-Evrópu, breyting sem hefur bein áhrif á stefnu og viðhorf stjórnvalda á Norðurlöndunum. Hér fyrir neðan er frétt sem er nú í loftinu um ný herskip Rússa á Eystrasalti sem eru búin eldflaugum sem duga til að ógna Norðurlöndunum öllum.

Tvær rússnesk herskip (korvettur) búin langdrægum eldflaugum eru á leið til  Eystrasalts. „Með þessu versnar hernaðarleg staða á Norðurlöndum,“ segir Tomas Ries, lektor við Varnarmálaháskólann i Svíþjóð við  sænsku TT-fréttastofuna.

Sérfræðingar töldu í upphafi að skipin sem hafa verið á Svartahafi væru á leið þaðan inn á Miðjarðarhaf. Þeim var hins vegar siglt norður á bóginn og voru að kveldi þriðjudags 25. október á Stóra-belti við Danmörku. Talið er að þau séu á leið til rússnesku hólmlendurnar Kaliningrad milli Litháens og Póllands.

Það sem vekur sérstaka athygli er að um borð í báðum skipunum eru langdrægar eldflaugar af Kailbr-gerð en þeim má skjóta lengri vegalengd en Iskander-flaugunum sem nýlega voru fluttar til Kaliningrad. Alls draga Kalibr-flaugarnar 2.600 km. Þær má búa kjarnaoddum.

Skipin voru notuð á Miðjarðarhafi sem skotpallur fyrir þrjár stýriflaugar sem sendar voru á skotmörk í Sýrlandi.

Í rússneska blaðinu Izvestija segir að þetta séu korvetturnar Zeljoníj Dol og Serputdjov sem hafi verið sendar úr Svartahafsflota Rússa til nýrrar flotadeildar innan Eystrasaltsflotans. Boðað er að fyrir 2020 bætist þrjú skip af sömu gerð við flotadeildina.

Ruslan Putsjov, rússneskur hernaðarsérfræðingur, segir við Izvestija að líklega beri að líta á nýju korvettu-deildina í Eystrasaltsflotanum sem beint svar við nýjum herdeildum NATO í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.

Tomas Ries segir að í fyrsta lagi felist pólitísk skilaboð í komu skipanna. Vladimír Pútín Rússlandsforseti geri sér góða grein fyrir því að með þessu veki hann mikla athygli, hann sýni þannig mátt sinn. Í öðru lagi hafi koma skipanna þann hernaðarlega tilgang að frá þeim sé unnt að ráðast á skotmörk hvar sem er á Norðurlöndunum.

Ries segir að ekki sé nein ástæða til að undrast það sem nú gerist. Pútín vinni skipulega að því að styrkja rússneska herinn á öllum sviðum.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …