Home / Fréttir / Tilraunaskot langdrægrar eldflaugar úr rússneskum kafbáti

Tilraunaskot langdrægrar eldflaugar úr rússneskum kafbáti

Eldflaugin kemur út kafi.

Rússneska varnarmálaráðuneytið skýrði frá því að morgni sunnudagsins 5. nóvember að áhöfn nýjasta rússneska kafbátsins af Borei-gerð, Imperator Aleksandr III., hefði skotið Bulava-eldflaug úr kafi í Hvítahafi. Nokkrum mínútum eftir að flaugin skaust upp úr haffletinum við norðvesturströnd Rússlands lenti hún á settu skotmarki sínu í Kora-fjallgarðinum á Kamstjatka-skaga í austurhluta Rússlands.

Kafbátnum Imperator Aleksandr III. var hleypt af stokkunum í desember í fyrra frá Sevmash-skipasmíðastöðinni í Severodvinsk skammt frá Arkangelsk í Norður-Rússlandi og hefur síðan verið siglt til reynslu auk þess sem þjálfun í notkun tækja hefur farið fram.

Þetta er sjöundi rússneski kafbáturinn af Borei-gerð og er talið líklegt að flotinn fái hann til afnota fyrir árslok. Impertator Aleksandr III. mun sigla í kjölfar sjötta Borei-kafbátsins, Generalissimus Suvorov, undir ísnum austur til rússneska Kyrrahafsflotans.

Í hverjum Borei-kafbáti eru 16 langdrægar Bulava-eldflaugar og er hver þeirra með 4 til 10 kjarnaodda. Unnið er að smíði þriggja kafbáta til viðbótar af þessari gerð en ráðgert að tveir bætist enn í hópinn þótt engir samningar hafi verið gerðir um það.

Rússar prófuðu allar þrjár greinar kjarnorkuherafla síns, á landi, sjó og í lofti, 25. október 2023. Þá var aðeins skotið á loft gamalli Sineava-eldflaug í Barentshafi frá Tula, Delta-IV kafbáti í Norðurflotanum.

Á Telegram-samfélagssíðunni var sagt frá því að 25. október hefði verið ætlunin að skjóta á loft Bulava-flaug en frá því hefði verið horfið á síðustu stundu.

 

Heimild: Barents Observer

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …