
Gámur var settur í járnbrautarlest um miðjan júlí í kínversku borginni Hefei. Innan við tveimur vikum síðar hafði hann verið fluttur um Kazakhastan og Rússland alla leið til Finnlands. Frá Helsinki var gámurinn sendur með bíl í norður og síðan í vestur til Noregs.
Þriðjudaginn 4. ágúst var gáminum fagnað í norska hafnarbænum Narvík í Norður-Noregi. Þar tóku á móti honum áhugamenn um þróun þessarar flutningaleiðar sem vilja nýta höfnina í Narvík með dreifingarhöfn. Þeir segja að í Narvík sé allt sem þarf, lestartengingar við Finnland og Svíþjóð og stórskipahöfn.
BarentsObserver greinir frá þessum tímamótum í flutningasögunni miðvikudaginn 5. ágúst og vitnar í Önnu Filinu sem heldur utan um verkefnið og segir: „Það felast miklir möguleikar í þessari leið.“
Hún telur að flytja megi kínverskan varning frá Kína til Narvíkur og norskan fisk þaðan til Kína. Þetta verði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Norður-Noregi en annarra þjóða menn geti einnig nýtt sér þennan kost, þar á meðal Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Hún nefnir ekki Íslendinga sem hlytu einnig að líta til þessarar nýju flutningaleiðar kæmi hún til sögunnar.
Í fyrsta kínverska gáminum voru húsgögn sem norskt fyrirtæki hafði pantað. Tilraunagámurinn var fluttur með vöruflutningabíl frá Helsinki en lestarflutningar eiga að hefjast um leið og eftirspurn leyfir.
Í BarentsObserver segir að svo virðist sem lestarflutningar milli Narvíkur og Kína hafi mikið samkeppnisforskot. Flutningstíminn með lest sé 15 til 17 dagar en 1,5 mánuður með skipi. Þá sé mun ódýrara að flytja með lest, 30 til 40% en með skipi og sjö sinnum ódýrara en með flugi.
Það var ekki fyrr en í desember 2019 sem Rússar heimiluðu að flytja mætti með lestum um land sitt varning sem fellur undir viðskiptabann þeirra gagnvart Vesturlöndum. Hve lengi leyfið gildir kemur í ljós en er á meðan er.
Þá minnast Norðmenn þess að kínversk stjórnvöld settu þá í margra ára bann eftir að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2009.
Þrátt fyrir lestarteina alla leið, lágt verð og mikinn framkvæmdavilja Norðmanna sem segja að þetta falli að óskaverkefni Kínastjórnar um belti og braut til annarra landa kunna hræringar í stjórnmálum að valda óvissu og setja strik í reikninginn.