
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að tilnefna Rose Gottemoeller, aðstoðarutanríkisráðherra afvopnunarmála, sem næsta vara-framkvæmdastjóra NATO. Venja er að því embætti gegni sami maður í fjögur ár. Aðildarríkjum NATO var tilkynnt þetta þriðjudaginn 8. mars.
Josh Rogin, fréttamaður hjá Bloomberg-fréttastofunni, segir að þingmenn repúblíkana telji þetta óskynsamlega tilnefningu með tilliti til samskipta við Rússa. Gottemoeller sé of mild í garð Rússa, nú á tímum yfirgangs þeirra.
Í bréfi sem Douglas Lute, fastafulltrúi Bandarkjanna hjá NATO, sendi öðrum fastanefndum gagnvart bandalaginu í Brussel segir að með því að tilnefna jafn reynda manneskju með víðtæka þekkingu á evrópskum öryggismálum í þetta embætti staðfesti Bandaríkjastjórn enn hollustu sína við NATO á tímum ögrandi verkefna.
Rogin segir að Gottemoeller hafi gegnt mikilvægu hlutverki í „endurræstum“ samskiptum Obama-stjórnarinnar við Rússa. Stefnan hafi skilað dálitlum árangri í fyrstu en síðan hafi henni í raun verið ýtt til hliðar vegna yfirgangs Rússa í Úkraínu og víðar. Repúblíkanar sem hafi gagnrýnt stefnuna gagnrýni Gottemoeller einnig. Ýmsir úr þeirra hópi hafi greitt atkvæði gegn því fyrir tveimur árum að hún fengi núverandi starf sitt. Þeir eru andvígir ákvæðum nýs sáttmála, START-sáttmála, um takmörkun langdrægra kjarnorkuvopna þar sem hún leiddi samningaviðræðurnar.
Fyrir utan þetta gagnrýna repúblíkanar Gottemoeller fyrir aðkomu hennar að framkvæmd afvopnunarsamninga við Rússa. Þingmenn telja að þar hafi komið í ljós að Obama-stjórninni sé annt um að halda í samninga við Rússa þótt allt bendi til að þeir brjóti gegn þeim. Þá bendir Rogin á að þeir sem mæli með samskiptum við Rússa á þessum sviðum séu ekki aðeins ósammála þingmönnum repúblíkana heldur einnig æðstu embættismönnum Bandaríkjanna á borð við Philip Breedlove, hershöfðingja, yfirmann Evrópuherstjórnar NATO, og Victoriu Nuland aðstoðarutanríkisráðherra sem hvetji bæði til meiri þrýstings á Pútín.
Rose Gottemoeller er ætlað að koma í stað Alexanders Verbows, fyrrv. embættismanns í bandaríska varnarmálaráðuneytinu og sendiherra í Rússlandi. Hann er kunnur fyrir harða afstöðu gagnvart Rússum.