Home / Fréttir / Tillerson vill harðari stefnu gegn Rússum – sat níu tíma í utanríkismálanefndinni

Tillerson vill harðari stefnu gegn Rússum – sat níu tíma í utanríkismálanefndinni

Rex Tillerson svarar spurningum þingmanna.
Rex Tillerson svarar spurningum þingmanna.

Rex Tillerson (64 ára) sem Donald Trump hefur tilnefnt sem utanríkisráðherra í stjórn sinni sat í níu klukkustundir fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings miðvikudaginn 11. janúar og svaraði spurningum nefndarmanna.

Hann sagðist hafa ákveðið að yfirgefa forstjórastólinn hjá risaolíufélaginu Exxon og taka tilnefningu sem utanríkisráðherra af því að öll rök gegn því hefðu í huga sínum snúist um einkahagsmuni hans, honum þætti mikils virði að fá tækifæri til að gæta hagsmuna þjóðar sinnar sem utanríkisráðherra.

Tillerson sagðist vita eftir ferðalög um heim allan og fundi með æðstu mönnum á sviði stjórnmála og viðskipta að þeir vildu ákveðnari forystu Bandaríkjastjórnar en veitt hefði verið í tíð Baracks Obama. Tæki Bandaríkjastjórn slíka forystu myndu dyr standa henni opnar um heim allan.

Vegna viðskiptasamninga Exxon við Rússa og funda Tillersons með Vladimír Pútín Rússlandsforseta og nánustu samstarfsmönnum hans hafa öldungadeildarþingmenn, einkum repúblíkanar, lýst efasemdum um réttmæti þess að tilnefna Tillerson sem utanríkisráðherra. Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, endurspeglaði þetta sjónarmið í harkalegum spurningum til Tillersons. Spurði Rubio meðal annars hvort Tillerson liti á Pútín sem stríðsglæpamann. „Ég mundi ekki nota þetta orð,“ sagði Tillerson.

Tillerson sagði að Bandaríkjastjórn yrði að endurskoða stefnu sína gagnvart Rússum. Það yrði að nálgast þá á nýjan hátt í leit að viðræðu- og samstarfsgrundvelli. Þeir væru meðal ýmissa „andstæðinga“ sem stæðu að baki „umtalsverðri ógn“ í heiminum. Hann sagði Rússar hefðu „með nýlegum aðgerðum haft bandaríska hagsmuni að engu“. Þar vísaði hann til innlimunar Krím í Rússland árið 2014 og hernaðaraðgerða Rússa í Sýrlandi.

Tillerson vék sér undan að svara beint hvort rússneskir tölvuþrjótar hefðu blandað sér í bandarísku forsetakosningabaráttuna. Hann sagðist þó ekki draga í efa niðurstöðu öryggis- og leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna um að tölvuinnbrot hefðu verið framin. Hann sagði ekkert um hvort hann styddi refsiaðgerðirnar sem Obama hefði gripið til gagnvart Rússum vegna tölvuárásanna.

Tillerson viðurkenndi að hann hefði ekki enn rætt við Trump um inntak stefnunnar gagnvart Rússum. Hann sagði: „Um þessar mundir stafar ógn af Rússum, ekki þarf að efast um að þeir vinna að framgangi eigin hagsmuna,“ sagði Tillerson og kvað fastar að orði en Trump hefur gert. Þá gagnrýndi Tillerson „mjög veikt andsvar“ Obama vegna innlimunarinnar á Krím. Hann hefði lagt til að Úkraínumenn söfnuðu öllum herafla sínum saman á austur landamærum lands síns.

Tillerson ræddi einnig annað en Rússa, þar á meðal Kína, hryðjuverk og endurnýjað stjórnmálasamband við Kúbu. Hann sagði „hættur“ felast í loftslagsbreytingum og væri nauðsynlegt að snúast gegn þeim.

Hann sagði að banna ætti Kínverjum aðgang að eyjum sem þeir hafa gert á umdeildu svæði á Suður-Kínahafi. Tillerson var spurður hvort hann styddi harðari afstöðu í garð Kínverja og svaraði: „Við verðum að gera Kínverjum alveg ljóst í fyrsta lagi að gerð eyja verður að hætta og í öðru lagi að þeim verði ekki leyft að komast til þessara eyja.“

Á meðan Rex Tillerson svaraði spurningum þingmanna efni Donald Trump til blaðamannafundar þar sem hann lýsti Tillerson sem „snillingi“

Eftir að fundinum með Tillerson lauk sagði formaður utanríkismálanefndarinnar, Bob Corker, repúblíkani frá Tennessee-ríki:

„Frá upphafi þessa ferlis hef ég lagt mig fram um að tryggja að sá sem hefur verið tilnefndur sem utanríkisráðherra njóti sanngirni og nákvæmni við yfirheyrslur í nefndinni og ég er ótrúlega ánægður með framgöngu Rex Tillersons. Miðað við það sem ég veit núna tel ég að Tillerson kunni að reynast frábær utanríkisráðherra og mun ég styðja tilnefningu hans.“

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …