Home / Fréttir / Tillerson segir Bandaríkjastjórn vilja ræða beint við N-Kóreumenn um upprætingu kjarnorkuheraflans

Tillerson segir Bandaríkjastjórn vilja ræða beint við N-Kóreumenn um upprætingu kjarnorkuheraflans

Rex Tillerson
Rex Tillerson

Bandaríkjastjórn er fús til að ræða milliliðalaust við stjórnvöld Norður-Kóreu um að þau bindi enda á uppbyggingu eigin kjarnorkuherafla. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þetta fimmtudaginn 27. apríl. Með þessu vilja Bandaríkjamenn efla alþjóðlega samstöðu gegn vígbúnaði N-Kóreumanna sem þeir telja sífellt hættulegri.

„Auðvitað viljum við reyna að leysa málið á þennan hátt,“ sagði Tillerson í samtali við National Public Radio, NPR, sem birt var föstudaginn 28. apríl, sama dag og Bandaríkjastjórn hefur óskað eftir fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að ræða hættuna af kjarnorkuher Norður-Kóreumanna.

Rex Tillerson verður sjálfur í forsæti fyrir Bandaríkjamenn á fundi öryggisráðsins.

„Norður-Kóreumenn verða hins vegar að ákveða hvort þeir vilja ræða við okkur um efni málsins, og efni málsins er ekki aðeins að þeir láti staðar numið í nokkra mánuði eða nokkur ár þar sem þeir eru núna og haldi síðan áfram að nýju. Það mál hefur verið á dagskrá undanfarin 20 ár.“

The Washington Post (WP) sagði föstudaginn 28. apríl ekki ljóst hvað í þessum orðum ráðherrans fælist en Tillerson hefði í NPR-samtalinu og öðru á Fox-sjónvarpsstöðnni fimmtudaginn 27. apríl tekið til við að lýsa diplómatískri leið Trump-stjórnarinnar gagnvart N-Kóreu sem væri reist á alþjóðlegum þrýstingi og beitingu á efnahagslegu og viðskiptalegu valdi Kínverja gagnvart þessum fátæka bandamanni sínum.

Bandaríkjastjórn hefur sagt að hún hafi þann kost að stöðva framhald á kjarnorkuvopnavæðingu N-Kóreumanna með vopnavaldi. Talið er ólíklegt að slíkt skref verði stigið í deilu ríkjanna. Með því að ræða málið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna kann Bandaríkjastjórn að vilja ná alþjóðlegu samkomulagi um að fari stigmögnun N-Kóreumanna yfir eitthvern ákveðinn ramma réttlæti hún svar af hálfu Bandaríkjamanna.

Það sem hér er í húfi snýst um tvennt: (1) að N-Kóreumenn fullsmíði kjarnaodd fyrir eldflaug sem send verði frá landi hennar; (2) að N-Kóreumenn smíði eldflaug sem sé nógu langdræg til að ógna Bandaríkjunum. Sé ekkert að gert er talið að innan fárra ára hafi N-Kóreumenn eignast þessi ógnarvopn – hugsanlega á þessu kjörtímabili Trumps sem forseta. Norður-Kóreumenn eiga nú þegar eldflaugar sem ógna Suður-Kóreu og Japan og öðrum nágrönnum þeirra í Asíu.

„Þegar við tókum við stjórnartaumunum stóðum við frammi fyrir mjög alvarlegri ógn af hálfu N-Kóreumanna. Við vissum af þessu og forsetinn beindi strax athygli sinni að málinu,“ sagði Tillerson við Fox. „Spennan er töluvert mikil einmitt núna. Við áttum von á þessu. Okkur er ljóst að áhætta felst í viðbrögðum okkar.“

Áróðursstöð N-Kóreustjórnar birti fimmtudaginn 27. apríl myndskeið sem sýndi tölvugerða árás á Hvíta húsið í Washington með þeim orðum að það væri „innan sjónmáls“ að „eyðileggja óvininn“.

Með milliliðalausum viðræðum um að N-Kóreumenn afsali sér kjarnorkuvopnum frekar en að frysta þróun þeirra í skiptum fyrir efnahagsaðstoð sagði Tillerson að Trump-stjórnin tæki afdráttarlausari afstöðu í málinu en stjórn demókrata og repúblíkana á undan henni.

Hann gaf einnig til kynna að við mótun stefnu sinnar nú hefðu Bandaríkjamenn hliðsjón af stefnu Kínverja.

Tillerson fór til Suður-Kóreu, Japans og Kína í mars. „Ég talaði við Kínverja í fyrstu ferð minni til Peking og sagði þeim að við vildum ekki semja um hvaða leið við færum að samningaborðinu [við N-Kóreumenn],“ sagði Tillerson við Fox. „Ég tel að áður fyrr hafi verið mistök að gera það. Norður-Kóreustjórn verður að setja sig í aðrar stellingar svo að við viljum ræða við hana.“

Kínverjar styðja viðræður við N-Kóreumenn og hafa lengi sagt að þeir vilji uppræta kjarnorkuvopn N-Kóreumanna en ekki sé unnt að knýja þá til þess án beinna trygginga frá Bandaríkjamönnum.

Í viðtalinu við Fox nefndi Tillerson nokkrar. Hann sagði að það vekti ekki fyrir Bandaríkjastjórn að knýja fram „stjórnarskipti“ með því að fella alræðisstjórn Kim-fjölskyldunnar í N-Kóreu, þá vaki ekki heldur fyrir stjórninni að finna „afsökun“ fyrir sameiningu Norður- og Suður-Kóreu. Utanríkisráðherrann sagði:

„Til þessa hefur stjórnin sagt að ástæðan fyrir kjarnorkuvopnum hennar sé að hún telji þau eina ráðið til að tryggja líf sitt. Við viljum breyta þessari skoðun hennar. Og við höfum sagt við þá að leið þeirra til að tryggja eigin framtíð og öryggi sé að fjarlægja kjarnorkuvopn sín og við munum ásamt öðrum veita ykkur efnahagslega aðstoð.“

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …