Home / Fréttir / Tillerson segir Bandaríkjamönnum að sofa rólegum þrátt fyrir hótanir N-Kóreumanna

Tillerson segir Bandaríkjamönnum að sofa rólegum þrátt fyrir hótanir N-Kóreumanna

Flotastöð Bandaríkjamanna á Guam.
Flotastöð Bandaríkjamanna á Guam.

Bandaríkjamenn ættu að „sofa rólegir“ og ekki hafa áhyggjur af hótunum Norður-Kóreumanna um árás á Guam segir Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Skömmu eftir að hann lét þessi orð falla fór Donald Trump Bandaríkjaforseti lofsamlegum orðum um kjarnorkumátt Bandaríkjanna á Twitter.

Flugvél Tillersons hafði hefðbundna viðkomu á bandarísku Kyrrahafseyjunni Guam miðvikudaginn 9. ágúst til að taka eldsneyti á leið sinni frá Malasíu til Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann ræddi við blaðamenn í vélinni og sagði að engin „yfirvofandi hætta“ steðjaði að Guam-eyju.

„Bandaríkjamenn geta sofið rólegir á nóttunni,“ sagði ráðherrann og vildi draga úr ótta manna við hugsanleg hernaðarátök milli Bandaríkjamanna og Norður-Kóreumanna.

Ráðherrann hafði stutta viðdvöl á Guam aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Norður-Kóreumenn lýstu eyjunni sem „strandfestu“ fyrir hugsanlega innrás í Bandaríkin. Ráðamenn í Pyongyang sögðu einnig að herstjórn þeirra velti fyrir sér áætlun um að skapa „eldhaf“ með því að senda eldflaugar á það svæði eyjarinnar þar bandaríska herstöðin er.

Tillerson reyndi einnig að draga úr „heimsslitahótun“ Donalds Trumps í garð Norður-Kóreumanna sem var undanfari þess að hótunin um eldflaugaárásina á Guam barst frá Pyongyang.

Donald Trump var í golfklúbbi sínum í New Jersey þriðjudaginn 8. ágúst þegar sagði „best “ fyrir einangraða leiðtoga Norður-Kóreu „að láta hjá líða að ógna Bandaríkjamönnum meira“.

Forsetinn sagði: „Yfir þá mun rigna meiri eldi og brennisteini en heimurinn hefur nokkru sinni áður kynnst.“

Í Guam sagði Tillerson um þessi orð forsetans að Trump vildi senda „sterk skilaboð til Norður-Kóreumanna með orðalagi sem Kim jong-un skildi“. Hann fullyrti einnig að ástæðulaust væri að ætla að Bandaríkjamenn færðust nær því að grípa til vopna.

„Ekkert sem ég hef séð og ekkert sem ég hef vitneskju um bendir til þess að ástandið hafi breyst á dramatískan hátt síðustu 24 klukkustundirnar,“ sagði utanríkisráðherrann. Hann taldi einnig að hótanir Norður-Kóreumanna sýndu að stefna Bandaríkjastjórnar gagnvart þeim skilaði árangri. Hann sagði:

„Árangur þrýstingsins er að koma í ljós. Þess vegna verða ráðamenn í Pyongyang háværari og ógnvænlegri.“

Skömmu eftir að Tillerson lét þessi orð falla virtist sem Donald Trump vildi enn herða róðurinn þegar hann tók til við að bera lof á kjarnorkumátt Bandaríkjanna og sagði að hann hefði „styrkst“ og orðið „öflugri en nokkru sinni fyrr“ eftir að hann varð forseti.

Áður en þessi hörðu orðaskipti hófust sendu Japanir frá sér skýrslu um varnarmál þar sem segir að Norður-Kóreumenn hafi framleitt á vel heppnaðan hátt smá-kjarnaodd sem koma mætti fyrir í eldflaugum þeirra.

Kínverjar lýstu stöðunni vegna Norður-Kóreu sem „mjög flókinni og viðkvæmri“.

„Við vonum að allir viðkomandi aðilar gæti orða sinna og fari fram af varúð, hætti að ögra hver öðrum, forðist að stigmagna deiluna frekar og reyni sem fyrst að snúa málum í réttan farveg umræðna og viðræðna,“ sagði kínverska utanríkisráðuneytið.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …