Home / Fréttir / Tillerson segir Assad-fjölskylduna verða að víkja í Sýrlandi – samskiptin við Rússa séu í lægð

Tillerson segir Assad-fjölskylduna verða að víkja í Sýrlandi – samskiptin við Rússa séu í lægð

170412055515-02-tillerson-lavrov-0412-exlarge-169
Sergei Lavrov og Rex Tillerson í Moskvu.

Fundum Rex Tillersons, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Moskvu með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, og síðan Vladimír Pútín, forseta Rússlands lauk um 17.30 að íslenskum tíma miðvikudaginn 12. apríl. Tillerson átti tæplega tveggja stunda langan fund með Pútín.

Að viðræðunum loknum efndu ráðherrarnir til blaðamannafundar þar sem þeir áréttuðu nauðsyn þess að stjórnir landa sinna héldu viðræðuleiðum opnum á viðkvæmum tímum.

Blaðamannafundurinn var langur. Tillerson var stuttorður bæði í upphafi fundarins og í svörum sínum. Lavrov var hins vegar langorður þegar hann  kynnti sjónarmið sín og svaraði spurningum blaðamanna.

Þetta var fyrsta eldraun Rex Tillersons sem utanríkisráðherra en fyrir fundinn með Sergei Lavrov gáfu ráðherrarnir ósamhljóða yfirlýsingar um viðkvæm utanríkis- og öryggismál eins og ástandið í Sýrlandi. Þá lét Vladimír Pútin orð falla um það í sjónvarpsviðtali fyrir fund sinn með Tillerson að samband Rússa við Bandaríkjamenn hefði versnað eftir að Donald Trump varð forseti.

Tillerson sagði í inngangsorðum sínum að samskipti ríkjanna væru í lægð á þessari stundu og lítið traust væri milli ríkjanna. Þetta væri óviðunandi ástand þegar um tvö helstu kjarnorkuveldi heims væri að ræða.

Lavrov sagði að Pútín hefði ákveðið að opna að nýju tengsl milli flugherja landanna til að tryggja öryggi í lofti yfir Sýrlandi. Rússar slitu tengslin eftir að Bandaríkjamenn skutu stýriflaugum á flugherstöð Sýrlendinga sem notuð var til efnavopnaárásar.

Rex Tillerson áréttaði á blaðamannafundinum fyrri ummæli sín um að valdatími Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, og fjölskyldu hans hefði runnið sitt skeið og það væri henni sjálfri að kenna. Hann sagði Bandaríkjastjórn ekki hafa neina vitneskju um að Rússar hefðu átt aðild að efnavopnaárásinni í Sýrlandi, hún hefði hins vegar verið gerð af sýrlenska flughernum að fyrirmælum Assads. Rússar ættu að benda Assad á best væri fyrir hann að víkja.

Sergei Lavrov sagði að rússnesk stjórnvöld ætluðu ekki að hlífa neinum sem bæri ábyrgð á efnavopnaárásunum í Sýrlandi. Hann vildi að eftirlitsnefnd á vegum Sameinðu þjóðanna gerði „hlutlæga og óvilhalla rannsókn“ á árásinni. Rússar teldu sýrlensku ríkisstjórnina ekki bera ábyrgð á henni sem varð nokkrum tugum barna, kvenna og karla að bana. Ekki þyrfti að álykta um málið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Lavrov varaði við alþjóðlegu átaki til að koma Assad frá völdum. Reynsla Vesturlanda í Írak og Líbíu sýndi að það reyndist ekki vel að beitt væri erlendu valdi til að velta valdamiklum ráðamönnum úr sessi.

Lavrov lagði sig fram um að gera sem minnst úr ágreiningi Rússa og Bandaríkjamanna um Sýrland og önnur málefni. Það væri ekki óviðráðanlegt viðfangsefni að jafna hann. Ráðamenn í Moskvu og Washington skildu hvorir aðra betur eftir fundi Tillersons í Moskvu.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …