Home / Fréttir / Tillerson í Moskvu – sannað að sarin var notað – 20% flughers Sýrlands eyðilögð

Tillerson í Moskvu – sannað að sarin var notað – 20% flughers Sýrlands eyðilögð

Rex Tillerson kemur til Moskvu.
Rex Tillerson kemur til Moskvu.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom til Moskvu síðdegis þriðjudaginn 11. apríl. Fréttaskýrendur segja að þar bíði hans erfiðasta verkefni hans sem utanríkisráðherra þegar hann tekur sér fyrir hendur að sannfæra rússneska ráðamenn um að þeir eigi að láta af stuðningi við Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.

Tillerson kom til Moskvu frá Ítalíu þar sem hann dvaldist í tvo daga og sat fund utanríkisráðherra G7-ríkjanna, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans, Kanada og Þýskalands. Eftir fundinn sagði Tillerson við blaðamenn:

„Okkur öllum er ljóst að stjórnartíð Assad-fjölskyldunnar er að ljúka.“

Fyrir komu Tillersons sendi rússneska utanríkisráðuneytið frá sér yfirlýsingu þar sem Bandaríkjastjórn var sökuð um „bandaríska sérhagsmunagæslu“ sem miðaði að því að refsa Rússum efnahagslega og takmarka áhrif þeirra á alþjóðavettvangi. Í yfirlýsingunni sagði:

„Rússar munu að sjálfsögðu ekki afsala sér lögmætum hagsmunum sínum og þeir munu aðeins ganga til samstarfs á jafnréttisgrunni sem fellur ekki að skoðunum allra í Washington. Við höfum þó alltaf verið og erum enn fúsir til að eiga mjög hreinskilnar viðræður við Bandaríkjamenn um hvaða mál sem er, tvíhliða eða fjölþjóðleg, og um samstarf á sviðum þar sem markmið falla saman.“

Taugagasið sarin notað

Endanlega hefur verið staðfest að taugagasið sarin var notað í efnavopnaárásinni í Idlib-héraði í Sýrlandi þriðjudaginn 4. apríl. Nazistar framleiddu fyrstir þetta sterka taugagas í Þýskalandi árið 1938. Það er bæði litar- og lyktarlaust, vegur að taugakerfinu og veldur öndunarerfiðleikum sem leiða til köfnunar. Sarin er skilgreint sem gjöreyðingarvopn.

Tyrkneska fréttastofan Anadolu hefur þetta eftir Recep Akdag, heilbrigðisráðherra Tyrklands. Hann sagði að sýra sem rakin sé til sarin hafi komið í ljós við rannsókn á blóði og þvagi.

Bandaríska forsetaembættið sakaði ríkisstjórn Rússlands þriðjudaginn 11. apríl um aðild að því að skýr rangt frá í því skyni að hlífa sýrlenska hernum við gagnrýni vegna beitingar efnavopnanna þriðjudaginn 4. apríl. Segja Bandaríkjamenn að leyniþjónusta sín og fjöldi samtíma frásagna staðfesti að sýrlenska stjórnin hefði beitt sarin gegn eigin borgurum.

Í Hvíta húsinu í Washington var birt fjögurra blaðsíðna greinargerð þar sem skýrt er frá upplýsingum sem Bandaríkjamenn hafa aflað um efnavopnaárásina. Þar er fullyrt að ríkisstjórnir Sýrlands og Rússlands hafi reynt að blekkja umheiminn með upplýsingafölsunum og miðlun „fals-frásagna“.

Ónafngreindir háttsettir embættismenn í Hvíta húsinu sögðu við blaðamann The New York Times að markmið Rússa væri að hylma yfir sekt sýrlensku stjórnarinnar.

Embættismennirnir sögðust ekki geta sagt neitt um hvort líklegt sé að rússnesk stjórnvöld hafi vitað fyrir fram um áform Sýrlendinga um efnavopnaárásina eða árásina sem eftir fylgdi á sjúkrahúsið þar sem hlúð var að fórnarlömbum árásarinnar.

Einn embættismannanna sagði þó að í ljósi sögu náinnar samvinnu milli herja Sýrlands og Rússlands yrði að líta til ábyrgðar ráðamanna í Moskvu á árásinni. Embættismenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins hafa sagt að rússneskt starfslið hafi verið í sýrlensku flugherstöðinni þar sem sprengjuvélarnar með efnavopnin fóru á loft.

Viðvörun bandaríska varnarmálaráðherrans

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, varaði mánudaginn 10. apríl Sýrlandsstjórn eindregið við að grípa að nýju til efnavopna. Gaf hann til kynna að Bandaríkjastjórn mundi svara slíkri árás af enn meiri hörku en gert var með stýriflaugunum 59 fimmtudaginn 6. apríl frá tundurspillunum Ross og Porter á austurhluta Miðjarðarhafs.

Um leið og varnarmálaráðherrann birti þessi varnaðarorð hafnaði hann fullyrðingum Rússa um að bandarísku Tomahawk-stýriflaugarnar hefðu ekki náð til skotmarka sinna og þess vegna hefði lítið tjón orðið í Shayrat-flugherstöðinni fyrir norðan Damaskus, höfuðborg Sýrlands.

„Að mati varnarmálaráðuneytisins olli árásin tjóni eða eyðileggingu á eldsneytis- og skotfærageymslum, loftvarnakerfum og 20% af starfhæfum flugflota Sýrlands,“ sagði Mattis.

Hann taldi einnig að myndir sem sýndar voru í ríkissjónvarpi Sýrlands af orrustuvélum að taka á loft daginn eftir árásina hafi verið liður í tilraunum til að leyna hve alvarlegt tjónið var. Varnarmálaráðuneytið sagði nóttina sem árásin var gerð að flugbrautir hefðu ekki verið eyðilagðar í árásinni vegna þess að auðvelt væri að gera þær nothæfar að nýju.

Mattis sagði: „Sýrlenska stjórnin getur ekki á þessari stundu sett eldsneyti eða vopn um borð í vélar á  Shayray-flugvelli, afnot af flugbrautum skipta hernaðarlega litlu.“

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …