Home / Fréttir / Tillerson fær tiltal úr Hvíta húsinu

Tillerson fær tiltal úr Hvíta húsinu

Secretary of State Rex Tillerson waits to speak at the 2017 Atlantic Council-Korea Foundation Forum in Washington, Tuesday, Dec. 12, 2017. (AP Photo/Susan Walsh)
Rex Tillerson

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þriðjudaginn 12. desember Bandaríkjamenn tilbúna til viðræðna Norður-Kóreumenn „án fyrirvara“. Embættismenn forsetaskrifstofunnar lýstu strax annarri skoðun.

Með því að taka annan pól í hæðina en Rex Tillerson gerðu menn Trumps enn einu lítið úr orðum utanríkisráðherrans. Þeir sögðu miðvikudaginn 13. desember að ekki yrði efnt til neinna viðræðna við Norður-Kóreustjórn „nema hún gjörbreytti um stefnu. „Með vísan til síðasta langdræga eldflaugaskotsins er ljóst að nú er ekki rétti tíminn [til viðræðna],“ sagði talsmaður þjóðaröryggisráðs forsetans.

Rex Tillerson flutti þriðjudaginn 12. desember ræðu á vegum samtakanna og hugveitunnar Atlantic Council í Washington. Hann sagði þá að Bandaríkjastjórn setti engin skilyrði vegna viðræðna við Norður-Kóreustjórn. Stjórnvöld í Rússlandi og Kína fögnuðu ummælum Tillersons og töldu þau bera vott um að mildari afstöðu bandarískra stjórnvalda en áður.  Þessi boð bárust frá Moskvu og Peking þótt Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi forsetans, hefði strax þriðjudaginn 12. desember sagt að Donald Trump hefði „ekki breytt afstöðu sinni til Norður-Kóreu“. Hún lýsti afstöðu forsetans ekki nánar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem afstaða Trumps til kjarnorkuvopna og eldflauga N-Kóreu er önnur en utanríkisráðherra hans. Þegar Tillerson fór til Kína í ágúst gaf hann til kynna að ekki hefði verið lokað fyrir öll samskipti milli ráðamanna í Washington og Pjongjang, höfuðborg N-Kóreu. Hann sagðist vona að fá tækifæri til að ræða við Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu. Þessi ummæli urðu tilefni gagnrýni frá Donald Trump. Hann sagði utanríkisráðherra sinn eyða tíma sínum til einskis með þessu tali.

Sarah Huckabee Sanders sagði þriðjudaginn 12. desember að ekki væri neinn ágreiningur um afstöðuna til N-Kóreumanna innan bandarísku ríkisstjórnarinnar. Ekki yrði gengið til neinna viðræðna við N-Kóreumenn nema þeir breyttu um stefnu og hættu tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar.

Norður-Kóreumenn hafa ekki látið í ljós minnsta vilja til að ræða við Bandaríkjastjórn eða fulltrúa hennar. Þeir hafa þvert á móti hreykt sér af því að ráða yfir vopnum sem dugi til að gjöreyða skotmarki hvar sem er í Bandaríkjunum.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …