Home / Fréttir / Tilkynning um 3. aðalfund Varðbergs

Tilkynning um 3. aðalfund Varðbergs

vardbergfull

Þriðji aðalfundur Varðbergs var haldinn í Safnahúsinu fimmtudaginn 15. desember klukkan 16.00. Birgir Ármannsson alþingismaður var fundarstjóri og Bjarni Markússon ráðgjafi var ritari.

Á fundinum var kjörin stjórn: Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra formaður, Margrét Cela, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir, ritari, Kristinn Valdimarsson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, gjaldkeri, Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur, vefstjóri, Árni Gunnarsson, fyrrv. alþingismaður, Kjartan Gunnarsson lögfræðingur og Þuríður Jónsdóttir lögfræðingur.

Björn Bjarnason flutti skýrslu og birtist hún hér í heild:

Með stofnun Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál 9. desember 2010 runnu saman tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg.  Er þetta þriðji aðalfundur Varðergs en hann skal haldinn á tveggja ára fresti.  Fyrsti fundurinn var haldinn 22. nóvember 2012, annar fundurinn 27. nóvember 2014 og nú er komið að þeim þriðja.

Á aðalfundinum 2014 voru kosin í stjórn:

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, formaður.
Árni Gunnarsson, fyrrv. alþingismaður,

Gustav Pétursson doktorsnemi.
Kjartan Gunnarsson lögfræðingur.
Margrét Cela, verkefnisstjóri Rannsóknaseturs um norðurslóðir.

Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur.
Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur.

Stjórnin skipti með sér verkum og hefur Gustav Pétursson verið ritari hennar og Tryggvi Hjaltason gjaldkeri og vefstjóri. Félagið ræður hvorki yfir starfsmanni né skrifstofu. Varðberg er rekið á netinu og hefur aukið umsvif sín þar verulega frá aðalfundinum 2014 því að snemma árs 2015 réðst Tryggvi Hjaltason í endurgerð vefsíðu félagsins www.vardberg.is og póstlista auk þess að tengja vefsíðuna inn á Facebook.

Voru nýja vefsíðan og áform um að birta daglega á henni efni tengt utanríkis- og öryggismálum kynnt með bréfi til félagsmanna 19. maí 2015. Hugmyndin um birtingu daglegs efnis hefur gengið eftir og nú telst mér til að þar hafi birst alls 660 færslur eða greinar með fyrirsögn og mynd frá því að þessi daglega miðlun frétta hófst. Í ár eru heimsóknir á síðuna 20.000, helmingi fleiri en 2015.

Allt er þetta félaginu að kostnaðarlausu en hefur orðið til að fjölga félagsmönnum eða þeim sem skrá sig á póstlista félagsins. Af athugun á póstlistanum ræð ég að 99 hafi skráð sig á hann frá því í maí 2015. Alls eru um 600 manns á listanum, ívið fleiri en í félaginu.

Vefkerfi félagsins virkar mjög vel og vil ég þakka Tryggja Hjaltasyni uppsetningu þess og umsýslu með því.

Fyrir utan miðlun á netinu snýst starfsemi félagsins um að efna til opinberra funda en fastur fundarstaður félagsins er í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns og setti stjórnin sér það mark að stefnt yrði að tveimur hádegisfundum á tímanum frá október til desember og tveimur frá janúar til apríl.

Hefur þetta gengið eftir árin 2015 og 2016. Umsvifin í ár hafa þó verið óvenjulega mikil vegna þess að í haust stóð Varðberg að þremur ráðstefnum með alls 13 ræðumönnum í tilefni af því að 10 ár voru liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli.

Á þessum tveimur árum, 2015 og 2016, hefur alls 21 ræðumaður talað á vegum félagsins á 11 fundum. Fylgir skrá um þessa fundi skýrslunni en ég les hana ekki nema þess sé óskað.

Ráðstefnurnar þrjár voru skipulagðar í samvinnu við Nexus, rannsóknarvettvang um öryggis- og varnarmál, og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og með góðri aðstoð norrænu sendiherranna hér á landi.

Þakka ég gott samstarf við þessa aðila en þó sérstaklega við Gustav Pétursson, ritara Varðbergs, og Kristin Valdimarsson, fulltrúa Nexus, sem báru auk mín hita og þunga af ráðstefnuhaldinu.

Allt efni sem tengist ráðstefnunum verður aðgengilegt á netinu.

Tókst að afla styrkja til ráðstefnuhaldsins frá upplýsingadeild NATO, utanríkisráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu. Gjaldkeri gerir nánari grein fyrir reikningum félagsins en fjárhagur þess er góður.

Hér verður ekki reifað efni og inntak Varðbergsfundanna en augljóst er að á árunum tveimur sem liðin eru frá aðalfundinum í nóvember 2014 hefur staða öryggis- og hermála í Norður-Evrópu og á Norður-Atlantshafi gjörbreyst. NATO-ríkin telja nauðsynlegt að huga að nýju að varnarviðbúnaði á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Augljóst er að skammsýni réð ákvörðun Bandaríkjastjórnar um lokun Keflavíkurstöðvarinnar haustið 2006. Þá var viðhorfið á þann veg að Bandaríkjamenn töldu Norður-Atlantshafið í raun ekki „strategískt svæði“ eins og einn ræðumanna orðaði það.

Áhugi á að nýta Varðberg sem vettvang umræðna um varnarmál vex jafnt og þétt og við honum verður að bregðast.

Í lok skýrslu minnar flyt ég þakkir til félagsmanna fyrir áhuga þeirra og til meðstjórnarmanna minna fyrir gott samstarf.

Fundir og ráðstefnur:

2015

Ólöf Nordal innanríkisráðherra var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 5. febrúar 2015 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu um efnið: Löggæsla og öryggismál í alþjóðasamhengi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 16. apríl 2015 í Norræna húsinu um efnið: Nýjar áskoranir í öryggis- og varnarmálum.

Lech Mastalerz, forstöðumaður sendiráðs Póllands í Reykjavík, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 8. október 2015 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins um efnið: Pólland andspænis áreitni Rússa.

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs  fimmtudaginn 19. nóvember 2015 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins um efnið: Tengsl Bandaríkjanna og Íslands: Brýn öryggismál á Norður-Atlantshafi.

2016

Berndt Körner, varaforstjóri Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs  fimmtudaginn 4. febrúar 2016 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins um efnið: Frontex og landamærastjórn.

Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 14. apríl 2016 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns um efnið: Undirrót óeirða og byltinga.

Clive Johnstone flotaforingi, yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs föstudaginn 23. september 2016 í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu um efnið: NATO og mikilvægi GIUK-hliðsins.

Þrjár ráðstefnur í tilefni af því að 10 ár voru liðin frá brottför bandaríska varnarliðsins árið 2006 Samstarfsaðilar Varðbergs: Nexus, rannsóknarvettvangur á sviði öryggis- og varnarmála og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands:

 

  1. ráðstefna: Brottför varnarliðsins – þróun varnarmála, fimmtudgaginn 6. október 2016 klukkan 14.00 til 17.00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns. Ræðumenn:

Utanríkisráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir.

Robert G. Loftis, prófessor við Boston-háskóla.

Ojars Eriks Kalnins, formaður utanríkismálanefndar þings Lettlands.

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO í Brussel.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis.

Pallborðsumræður undir stjórn Björns Bjarnasonar, formanns Varðbergs.

 

  1. ráðstefna: Nýjar áherslur Norðurlandanna í varnarmálum, fimmtudaginn 27. október 2016 kl. 14.00 til 17.00 í fyrirtlestrarsal Þjóðminjasafns. Ræðumenn

 

Sten Rynning, yfirmaður stríðsrannsóknadeildar (Center for War Studies) í Suður danska háskólanum.

Anna Wieslander, stjórnandi málefna Norður-Evrópu við Atlantic Council og framkvæmdastjóri Sænsku varnarmálasamtakanna.

Charly Salonius-Pasternak, fræðimaður hjá Finnsku alþjóðamálastofnuninni.

Svein Efjestad, yfirmaður stefnumótunardeildar í norska varnarmálaráðuneytinu.

Pallborðsumræður undir stjórn Björns Bjarnasonar, formanns Varðbergs.

 

  1. ráðstefna: Endurmat á hernaðarlegu vægi Íslands og nágrennis fimmtudaginn 17. nóvember kl. 14:00 – 17:00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Ræðumenn:

Simon Hardern, flotaforingi, hermálasérfræðingur hjá NATO.

Rolf Tamnes, prófessor við Rannsóknarstofnun norska hersins í varnarmálum.

Magnus Nordenman, deildarstjóri Transatlantic Security Initiative hjá Atlantic Council í Washington.

James Henry Bergeron, aðalstjórnmálaráðgjafi við flotastjórn NATO.

Pallborðsumræður undir stjórn Björns Bjarnasonar, formanns Varðbergs.

 

Petr Pavel, hershöfðingi, formaður hermálanefndar NATO, var ræðumaður á hádegisfundi Varðbergs mánudaginn 21. nóvember 2016 í Norræna húsinu um efnið: NATO – nýjar áskoranir í Norður-Evrópu

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …