Home / Fréttir / Tikhanovskaja vill aðstoð Finna í Hvíta-Rússlandi

Tikhanovskaja vill aðstoð Finna í Hvíta-Rússlandi

Svetlana Tikhanovskaja.

Svetlana Tikhanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, segir við finnska ríkisútvarpið YLE að Finnar geti gegnt lykilhlutverki við að leysa stjórnlagakreppuna í Hvíta-Rússlandi segir á vefsíðu YLE sunnudaginn 9. maí.

„Finnland er voldugt land. Margar þjóðir vanmeta mátt sinn og áhrif. Vegna hlutleysis síns hafa Finnar einstakt tækifæri til að aðstoða okkur við leit að lausn,“ sagði hún við YLE.

Tikhanovskaja hefur hvað eftir annað leitað hjálpar innan alþjóða samfélagsins eftir að hún fór í útlegð í Litháen eftr forsetakosningarnar í Hvíta-Rússlandi 9. ágúst 2020.

„Finnar gætu átt frumkvæði að hringborðsumræðum milli stjórnvalda, Rússa og fulltrúa almennra borgara í Hvíta-Rússlandi,“ sagði hún og taldi að leiðtogafundur yrði mikilvægt skref til lausnar á kreppunni.

Tikhanovskaja leitaði einnig ásjár hjá Finnum þegar hún heimsótti Helsinki í mars 2021.

„Meðan þið hugsið og bíðið þjáist þjóð okkar í fangelsi,“ sagði hún.

Þegar úrslit forsetakosninganna í ágúst lágu fyrir og Alexander Lukasjenko var lýstur sigurvegari í sjötta skipti reis þjóðin til mótmæla vegna gruns um. kosningasvik. Á Vesturlöndum tóku ráðamenn undir með mótmælendum í Hvíta-Rússlandi.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …