Home / Fréttir / Tíðari kafbátaferðir Rússa um Atlantshaf á stríðstíma í Úkraínu

Tíðari kafbátaferðir Rússa um Atlantshaf á stríðstíma í Úkraínu

Christopher Cavoli, yfirmaður Bandaríkjahers í Evrópu.

Rússneski landherinn hefur skaðast í stríðinu í Úkraínu en margar aðrar einingar hersins eru óskaddaðar sagði yfirmaður Bandaríkjahers í hermálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings miðvikudaginn 26. apríl.

Bandaríski hershöfðinginn Christopher Cavoli sagði þingmönnunum að kafbátafloti Rússa hefði látið óvenjulega mikið að sér kveða á Atlantshafi undanfarið þrátt fyrir vandræði Rússa í Úkraínu.

„Stríðið hefur ekki haft neikvæð áhrif á stóran hluta rússneska hersins. Ein þessara eininga er neðansjávarheraflinn,“ sagði Cavoli í þingnefndinni þegar hann svaraði demókratanum Joe Courtney frá Conneticutríki við Atlantshafsströndina.

Cavoli sagði ekki mikið um kafbátana á opnum fundi nefndarinnar en gaf þó hugmynd um athafnir þeirra:

„Rússar láta meira að sér kveða núna en við höfum séð árum saman, og ferðir þeirra út á Atlantshaf og um Atlantshaf eru mjög tíðar, oftast miklu tíðari en við höfum séð í mörg ár,“ sagði hershöfðinginn þingmönnunum. „Og eins og þú segir gerist þetta þrátt fyrir allt sem þeir leggja á sig í Úkraínu.“

Þrátt fyrir mikið mannfall og gífurlegt tjón á hergögnum hefur Rússum mistekist að ná meginmarkmiðum sínum með stríðinu í Úkraínu. Cavoli sagði í þingnefndinni að Rússar væru ógnvænlegir andstæðingar þótt Úkraínuher hefði styrkt stöðu sína til gagnsóknar.

„Rússneski landherinn hefur þolað töluverða niðurlægingu í þessum átökum,

jafnvel þótt hann sé stærri núna en við upphaf stríðsins,“ sagði hershöfðinginn. „Flugherinn hefur orðið fyrir mjög litlu tjóni, hann hefur tapað 80 flugvélum. Þeir eiga enn um 1.000 orrustu- og sprengjuþotur. Flotinn hefur tapað einu skipi.“

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …