Home / Fréttir / Þýskur sérfræðingur: Flóttamannastefnan hefur runnið sitt skeið – ný vinnubrögð nauðsynleg

Þýskur sérfræðingur: Flóttamannastefnan hefur runnið sitt skeið – ný vinnubrögð nauðsynleg

Barbara John
Barbara John

Tæplega helmingur flóttamanna sem lagt hafa upp frá löndum þar sem öryggi ríkir eiga litla von um hæli í Þýskalandi. Miklar umræður eru í landinu um hvernig skynsamlegast sé að bregðast við hinum mikla straumi flóttamanna til landsins.

Á vefsíðu Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ)var fimmtudaginn 3. september rætt við Barböru John, sem hefur farið með útlendingamál Berlínar fyrir kristilega demókrata. Hún lætur mannréttindamál til sín taka og telur að nálgast beri mál hælisleitenda á allt annan hátt en nú er gert. Hér er viðtalið í lauslegri þýðingu.

Mechthild Küpper FAZ: Frú John, þér birtuð nýlega greinargerð um mál hælisleitenda og flóttamanna undir heitinu „Aftur sama vitleysan“. Í hverju felst vitleysan?

John: Á milli 40 og 45% flóttamanna koma frá löndum þar sem vissulega er um mismunun að ræða, einkum gagnvart róma-fólki (sígaunum), en það er ekki ofsótt af pólitískum ástæðum. Hvaða tilgang hefur að senda þetta fólk inn í ferli okkar fyrir hælisleitendur? Það kemur, leggur fram umsókn, við skjótum því inn umsóknarkerfi okkar, tryggjum því fæði og húsnæði, bönnum því að vinna o. s. frv. – að lokum er því brottvísað.  Fólkið grípur eindaldlega tækifærið. Það mundi hver skynsamur maður gera. Við gerum þeim þetta kleift þótt allt umstangið sé gagnslaust. Brottvísunarkerfið virkar svo ekki: Fjöldi hinna brottvísuðu hækkar jafnt og þétt, brottflutningur er hins vegar mjög fátíður, brottflutningur er erfiður fyrir alla.

FAZ: Hver er tillaga yðar?

John: Það liggur í augum uppi að ekki verður öllum sem koma í leit að betra lífi og segjast sæta pólitískum ofsóknum veitt hæli í Þýskalandi. Þeir ættu að geta lagt fram hælisumsókn í evrópskum sendiráðum þar sem þau er að finna. Það mundi spara tugum þúsunda manna að fara í þessa hringekju. Það er ekki unnt að kalla það flóttamannastefnu að leyfa fólki að koma hingað til þess eins að senda það á brott aftur. Nota mætti fjármunina sem þetta kostar til að fjármagna Balkan-áætlun ESB og leggja þeim lið sem þar búa, einnig ákveðnum minnihlutahópum.

FAZ: Við setjum alla undir sama hatt i þessu kerfi hvort sem þeir eru hælisleitendur eða í leit að betri lífskjörum: Er þetta nýmæli?

John: Að tekið sé við hælisumsóknum frá fólki sem ekki sætir ofsóknum en vill betra líf er ekki nýtt. Hinn mikli fjöldi er nýr. Einmitt hinn mikli fjöldi veldur því að það er ekkert vit í að senda alla umsækjendur í gegnum hið þéttriðna net fyrir hælisleitendur.

FAZ: Þér mælið ekki með að afgreiðslu umsókna verði hraðað?

John: Nei, jafnvel þótt aðeins tæki þrjá daga að afgreiða hælisumsókn, nú tekur það skemmst 5,5 mánuði, stöndum við frammi fyrir vandanum við að senda umsækjandann aftur til baka. Hið sama á við um brottvísun og Dublinar-reglurnar hvorugt virkar illa. Við verðum hins vegar að forgangsraða. Við verðum að læra að gera greinarmun á þeim sem þarfnast skjóls og hinna sem við getum aðstoðað á mun einfaldari hátt.

FAZ: Væri ekki um algjöra nýjung að ræða ef flóttamenn gætu lagt fram umsókn um hæli í sendiráði?

John:  Alls ekki, ríki eins og Kanada hafa fyrir löngu haft slíka reglu. UNHCR, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem á fulltrúa í öllum löndum gæti einnig átt aðild að slíku kerfi. Ég sé engu hættu á því að ekki mætti hjálpa þeim sem í raun sæta ofsóknum.

FAZ: Siðferðileg sjónarmið setja mikil svip á umræður um flóttamenn og hæli, það veldur erfiðleikum við allar breytingar.

John: Hárrétt, þýsku útlendingalögin og alþjóðasamningar voru gulls ígildi fyrir pólitíska flóttamenn í kalda stríðinu. Allt annað gildir núna. Þá voru skil á milli austurs og vesturs. Menn leituðu frelsis úr ofsóknarríkjum. Nú bjarga milljónir manna lífi og limum með því að leita skjóls í nágrannalöndum sínum. Þá var ekki um það að ræða. Ástandið er nú á þennan veg í Mið-Austurlöndum þar sem finna má risavaxnar flóttamannabúðir í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu. Aðbúnaður þar og lífskjör eru hins vegar hörmuleg. Margir leggja á flótta í annað sinn og þá til Þýskalands. Nýlega var skýrt frá því að mánaðarlega væri styrkur á mann til kaupa á nauðsynjum 13,50 dollarar í flóttamannabúðum í Líbanon. Ef við viljum fylgja flóttamannastefnu sem nær til fleiri en þeirra sem komast til Evrópu verðum við að láta okkur örlög fólksins þarna miklu meira varða. Þarna verður að veita þjónustu sem er á okkar valdi: menntun, heilsugæslu, þjálfun. Sé þetta ekki gert er ýtt undir hinn hættulega flótta með smyglurum til Evrópu.

FAZ: Þér teljið í grunninn umhugsunarvert hvort allir þurfi að komast hingað til að fá hjálp og skjól?

John: Já, við höldum fast í þessa skoðun: Þú verður að stíga fæti þínum á okkar land annars áttu enga von um hæli. Þessi stefna frá fyrri öld hefur runnið sitt skeið. Þessi þvingun leiðir aðeins til þess að þeir leita á náðir smyglaranna, greiða þeim stórfé og hætta lífi sínu. Það er ekki auðvelt að breyta þessu á skjótan hátt en við verðum að huga að nýjum úrræðum. Vernd flóttamanna hefst á hættusvæðunum og síðan í nálægum löndum. Bíðum ekki eftir að einhver komi. Það sem við kynnumst um þessar mundir er  ekki tímabundin krísa sem gengur yfir eins og þrumuveður. Hér er um félagsleg umbrot að ræða sem snerta þjóðerni, trúarbrögð og völd. Mið-Austurlönd eru í upplausn. Hver sem vettlingi getur valdið vill komast frá Sýrlandi og Írak. Þess vegna verðum við að aðstoða nágrannaríkin við að sinna flóttafólkinu enn betur.

FAZ: Og hvar er best að hefjast handa?

John: Á mörgu þar sem regluverkið er alltof þungt. Við báðum til dæmis samstarfstofnanir okkar að aðstoða þá flóttamenn, sem ekki vildu sitja auðum höndum, við að komast í eitthvert starf sem gerði þeim kleift að afla sér tekna fyrir mat og öðrum lífsnauðsynjum. Ekki leið á löngu þar til útlendingayfirvöldin sendu frá sér önugt embættisbréf. Þetta væri ólöglegt og drægi dilk á eftir sér, þeir yrðu að bera kostnað af brottvísuninni. Það verður að opna allar leiðir til að þeir geti leitað sér vinnu. Hver sá sem hingað kemur verður að öðlast rétt til að fá sér vinnu um leið og hann fær dvalarleyfi.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …