Home / Fréttir / Þýsku stjórninni borgið – Maaßen gerður aðstoðarráðherra

Þýsku stjórninni borgið – Maaßen gerður aðstoðarráðherra

Hans-Georg Maaßen, fráfarandi yfirmaður þýsku öryggis- og leyniþjónustunnar.
Hans-Georg Maaßen, fráfarandi yfirmaður þýsku öryggis- og leyniþjónustunnar.

Hans-Georg Maaßen, yfirmaður þýsku öryggis- og leyniþjónustunnar, BfV, var leystur frá embætti sínu þriðjudaginn 18. september en hækkaður í tign með því að verða aðstoðar-innanríkisráðherra. Á þennan hátt var komið í veg fyrir stjórnarkreppu. Málamiðlun náðist milli jafnaðarmanna (SPD) og innanríkisráðherrans, Horsts Seehofers, leiðtoga CSU í Bæjaralandi.

Í þýskum fjölmiðlum er talað um „súrrealíska málamiðlun“ í þessu sambandi. Angela Merkel, kanslari, leiðtogi CDU, var sögð vilja losna við Maaßen úr stöðu forstjóra öryggis- og leyniþjónustunnar þar sem hann hafði óbeint gagnrýnt hana fyrir vísa til ótrúverðugs myndskeiðs um mótmæli gegn útlendingum í Chemnitz í austurhluta Þýskalands. Seehofer lýsti trausti á forstjórann en SPD vantrausti.

Leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja hittust á fundi til að ræða ágreininginn síðdegis þriðjudaginn 18. september og sendu frá sér tilkynningu að honum loknum um Maaßen tæki við stöðu aðstoðarráðherra í innanríkisráðuneytinu án þess að hafa afskipti af málum BfV.

Stjórnmálaskýrendur segja að deilurnar um stöðu Maaßens sé nýjasti kaflinn í deilum um útlendingamál innan ríkisstjórnarinnar. Merkel og Seehofer hefur greint á um landamæravörslu og lá við stjórnarkreppu vegna þess í júní. Seehofer sló af kröfum sínum. Vegna deilunnar um Maaßen er haft eftir Seehofer að hann segði af sér ráðherraembætti yrði Maaßen rekinn. Þess er vænst að miðvikudaginn 19. september geri Seehofer grein fyrir uppstokkun í ráðuneyti sínu og hver taki við af Maaßen.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …