Home / Fréttir / Þýskir fjölmiðlar segja NATO íhuga leiðir gegn kjarnorkuherafla Rússa

Þýskir fjölmiðlar segja NATO íhuga leiðir gegn kjarnorkuherafla Rússa

    Rússneskar eldflaugar af Buk-gerð.Rússneskar eldflaugar af Buk-gerð.

Rússar ætla að brjóta samning um meðaldrægar kjarnorkueldflaugar sem gerður var í kalda stríðinu. Þýskir fjölmiðlar segja frá því að innan NATO velti menn fyrir sér til hvaða ráða eigi að taka vegna þessa. Kemur fram að innan bandalagsins hafi verið unnin trúnaðarskýrsla þar sem nefnd séu 39 úrræði.

Meðal annars er nefnt að NATO-ríkin efli kjarnorkuherafla sinn. Komið verði á fót nýju forvarnakerfi, kafbátavarnir verði auknar og bandarískar B-2 og B-52 sprengjuvélar sendar oftar til Evrópu. Þá er einnig nefnt sem kostur að fjölga þeim flugvélum í Evrópu sem geta borið kjarnorkusprengjur. Telja skýrsluhöfundar að aðgerðir af þessu tagi knýi Rússa til að setjast til samninga um málið.

Í Die Welt föstudaginn 1. september segir að ekki hafi tekist að fá staðfest hjá embættismanni NATO hvort skýrsla eða skjal af þessu tagi hafi verið kynnt. Hann sagði hins vegar að á vettvangi bandalagsins ræddu menn á formlegan hátt til hvaða ráða ætti að grípa til að svonefnt INF-samkomulag (Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty) um meðaldrægar flaugar yrði virt og hvaða afleiðingar það hefði fyrir NATO væri það ekki virt.

Í samkomulaginu sem er milli Bandaríkjamanna og Rússa er þjóðunum bannað að smíða og eiga eldflaugar á landi sem draga á milli 500 og 5000 km með kjarnaodda.

Aðdragandi INF-samkomulagsins var langvinnt spennuástand milli austurs og vesturs í kalda stríðinu. Það hófst með því að Sovétmenn komu fyrir SS-20 eldflaugum sem beint var að skotmörkum í Vestur-Evrópu. Bandaríkjamenn svöruðu með Pershing II-eldflaugum sem drógu aðeins skemur en SS-20 flaugarnar en voru marksæknari en þær. Eftir að Sovétmenn neituðu að taka SS-20 flaugarnar niður settu Bandaríkjamenn upp Pershing-II flaugar í Evrópu og þar á meðal í Þýskalandi. Vegna þessara ákvarðana urðu til „friðarhreyfingar“ í Evrópu. François Mitterrand Frakklandsforseti komst þannig að orði að Sovétmenn settu upp eldflaugar en á Vesturlöndum stofnuðu menn friðarhreyfingar.

Eftir erfiðar samningaviðræður, meðal annars í Höfða í Reykjavik í október 1986, skrifuðu Ronald Reagan Bandsríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétforseti í desember 1987 í Washington undir INF-samkomulagið. Innan þriggja ára átti að fjarlægja flaugarnar undir gagnkvæmu eftirliti. Frá og með 1. júní 1991 höfðu meira en 2.500 eldflaugar verið eyðilagðar og hvorugt ríkið réð lemgur yfir neinum eldflaugum af þessari gerð. Stjórnendum þeirra var einnig bannað að velta fyrir sér nokkru í stað þeirra.

Það liðu þó ekki nema 10 ár þar til Rússar tóku að ræða að þeir ættu að segja sig undan samkomulaginu. Þeir sem það vildu bentu á að Bandaríkjamenn hefðu þróað eldflaugavarnir og hluti þess kerfis kynni að verða settur upp í Austur-Evrópu. Í Kreml töldu menn að með þessu væri brotið gegn INF-samkomulaginu, það væri í raun orðið úrelt. Í Bandaríkjunum segja menn að Rússar hafi eftirt þetta að nýju tekið til við að þróa meðaldrægar eldflaugar, gera tilraunir með þær og síðan koma þeim fyrir á skotpöllum. Þarna er meðal annars vísað til skammdrægu Iskander-eldflauganna sem draga allt að 400 km og geta flutt kjarnaodda. Þeim hefur meðal annars verið komið fyrir í Kaliningrad, hólmlendunni við Eystrasalt, milli Litháens og Póllands. Þaðan má skjóta þeim til Berlínar, höfuðborgar Þýskalands.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …