Home / Fréttir / Þýskir þingmenn segja Bannon undirbúa stórárás á ESB

Þýskir þingmenn segja Bannon undirbúa stórárás á ESB

Steve Bannon
Steve Bannon

Steve Bannon fyrrv. kosningaráðgjafi Donalds Trumps sem blés lífi í baráttu hans síðsumars 2016 og trúði alltaf á sigur yfir Hillary Clinton hefur kynnt hugmynd um að koma á fót hægrisinnaðri hugveitu í Evrópu. Þýskir þingmenn segja að áform hans um að taka þátt í kosningabaráttu vegna kjörs til ESB-þingsins sumarið 2019 séu „stórárás á ESB“.

Bannon er umdeildur bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hann lét á sínum tíma að sér kveða í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Breta að ESB og barðist þá með úrsagnarsinnum.

Eftir að Bannon hraktist úr Hvíta húsinu fyrir tæpu ári og síðan frá net-útgáfufyrirtæki sínu hélt hann til Evrópu. Hann lét að sér kveða í ítölskum stjórnmálum og á ítök í stjórnarflokkunum þar, uppnámsflokkunum, Bandalaginu og Fimmstjörnu-hreyfingunni. Þá flutti hann fyrirlestra á málþingum í Sviss og Austurríki auk þess að ávarpa þing flokks Marine Le Pen í Frakklandi.

Michael Roth, þingmaður þýskra jafnaðarmanna og ráðherra Evrópumála, sagði við þýska blaðið Die Welt vegna áforma Bannons: „Nú verðum við að berjast, með sterkum rökum, af öryggi og sannfæringu.“ Hann sagði að talsmenn ESB ættu „ekki að óttast þjóðernislegar baráttuaðferðir sem Bannon kann að beita til að knésetja ESB … gildi okkar eru sterkari en hatur hans og lygar“.

Florian Hahn úr CSU, bæverska systurflokki CDU, flokks Angelu Merkel, sagði við Die Welt að „taka yrði alvarlega“ hugsanleg áhrif Bannons á ESB-kosningarnar. Öll ríki ESB yrðu að vera á varðbergi gegn hvers kyns óboðnum erlendum aðilum sem reyndu að hafa áhrif á kosningarnar.

Á vefsíðunni The Daily Beast segir að hugveita Bannons verði líklega með aðsetur í Brussel og hann muni berjast undir merkjum samtaka sem teygi sig til ýmissa landa undir heitinu Hreyfingin.

Þýski ESB-andstöðuflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) hefur átt samstarf við Bannon og er flokkurinn eini þýski stjórnmálaflokkurinn sem fagnar nýjasta framtaki hans. AfD hefur hafnað kosningaaðstoð frá Bannon. Annar formanna AfD, Alice Weidel, leiaði þó ráða hjá Bannon í mars 2018 þegar þau sóttu bæði ráðstefnu í Sviss. Hún segir að áform Bannons séu „spennandi og metnaðarfull“.

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …