Home / Fréttir / Þýskir ráðherrar andmæla fullyrðingu Trumps um NATO-„skuldir“ Þjóðverja

Þýskir ráðherrar andmæla fullyrðingu Trumps um NATO-„skuldir“ Þjóðverja

Angela Merkel og Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu 17. mars 2017.
Angela Merkel og Donald Trump á fundi í Hvíta húsinu 17. mars 2017.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýsklands, hefur hafnað fullyrðingu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að Þjóðverjar skuldi NATO „miklar fjárfúlgur“.

Varnarmálaráðherrann sagði í yfirlýsingu sunnudaginn 19. mars að innan NATO væru „engar skuldir færðar í reikninga“. Hún velti einnig fyrir sér aðferðum við útreikninga á útgjöldum til varnarmála. Í því efni ætti ekki aðeins að líta til fjárhagslegra skuldbindinga gagnvart NATO.

Laugardaginn 18. mars, daginn eftir fyrsta fund sinn með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Washington, sagði Trump á Twitter að Þjóðverjar skulduðu NATO „miklar fjárfúlgur“. Hann sagði að Bandaríkjastjórn yrði að fá „meira greitt fyrir öflugar en fokdýrar varnir sem hún veitir Þýskalandi“.

Á fundinum með Trump áréttaði Merkel að Þjóðverjar ætluðu að standa við NATO-skuldbindingu sína um að verja 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) sinni til varnarmála. Árið 2014 ákváðu leiðtogar NATO-ríkjanna á fundi í Wales að þessu marki yrði náð á 10 árum, það er á árinu 2024.

Von der Leyen sagði sunnudaginn 19. mars að ekki ætti einungis að nota útgjöld vegna NATO til að mæla hernaðarframlag Þýskalands. Með þessum orðum vísaði hún til aðildar Þjóðverja að friðargæslu í nokkrum löndum og þátttöku þeirra í baráttunni gegn Daesh (Ríki íslams).

Hún sagði að framvegis miðaðist útgjaldarammi þýsku stjórnarinnar vegna varnarmála ekki aðeins við greiðslur vegna NATO heldur einnig vegna þátttöku í aðgerðum á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, brást einnig við ummælum Trumps í samtali við blaðið Rhein-Neckar-Zeitung mánudaginn 20. mars. Ráðherrann sagði:

„Skynsamleg stefna í öryggismálum snýst ekki aðeins um að kaupa skriðdreka, auka hernaðarútgjöld í brjálæðislegar hæðir og herða á vígbúnaðarkapphlaupinu. Hún felst í að koma í veg fyrir hættuástand, skapa stöðugleika í veikburða ríkjum, stuðla að efnahagsframförum og berjast gegn hungri, loftslagsbreytingum og vatnsskorti.“

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …