Home / Fréttir / Þýskir ráðamenn ræða enn um nauðsyn og verkefni ESB-hers

Þýskir ráðamenn ræða enn um nauðsyn og verkefni ESB-hers

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands.
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands.

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, vill að nýr ESB-sjóður í þágu varnarmála verði notaður til að þróa dróna, betri flugvélar og til þjálfunar á herforingjum. Hún segir að Þjóðverjar og Frakkar hafi nú þegar ákveðin verkefni fyrir sjóðinn í huga. Forystumenn ESB segja sjóðinn marka þáttaskil í samstarfi ESB-ríkjanna.

Í samtali við blaðamann Funke-útgáfunnar laugardaginn 10. júní sagði varnarmálaráðherrann: „Við Evrópubúar verðum að ná fastari tökum á okkar eigin öryggi.“ Vísaði ráðherrann í því sambandi til breyttra aðstæðna vegna úrsagnar Breta úr ESB og afstöðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Von der Leyen var í heimsókn í stórri þjálfunarmiðstöð fyrir áhafnir skriðdreka skammt frá bænum Detmold í Essen. Miðstöðin er kennd við Rommel í höfuðið á skriðdrekaforingjanum í Afríkuher Hitlers. Hún sagði að þýski herinn þyrfti meiri fjárstuðning og meiri stuðning almennings.

„Hlý orð nægja ekki,“ sagði von der Leyen sem er flokkssystir Angelu Merkel Þýskalandskanslara í CDU. Hún taldi „brýnt“ að endurnýja tækjakost og fjölga honum til nota erlendis til að takast á við hryðjuverkamenn.

Hún sagðist búast við því þýskir hermenn yrðu enn árum saman í Afganistan. Þeir voru fyrst sendir þangað árið 2001 en eru nú 940 talsins og flestir starfa sem þjálfarar eða ráðgjafar.

Hún minnti á að þýskir hermenn hefðu nú verið í næstum tvo áratugi í Kosovó. Nú hefðu Frakkar og Þjóðverjar hug á að nota fé úr sjóði ESB til að skapa stöðugleika á norðurströnd Afríku.

Framkvæmdastjórn ESB kynnti nýja varnarmálasjóðinn til sögunnar miðvikudaginn 7. júní. Miðað er við að frá með 2019 verði 500 milljón evrur í sjóðnum.

Laugardaginn 10. júní hafði þýski herinn „opið hús“ í nokkrum herstöðvum um allt Þýskaland. Þetta kallaði á mótmæli frá friðar-aðgerðasinnum og á andstöðu af hálfu Linke-flokksins, vinstri flokksins, sem efndi til flokksþings í Hannover. Þar ályktuðu menn að Þjóðverjar ættu að boða friðarátak í stað þess eiga hernaðarlega aðild að 15 aðgerðum erlendis.

Annar leiðtoga Linke-flokksins, Bernd Riexinger, sagði við útvarpsstöðina Deutschlandfunk laugardaginn 10. júní að aðrir þýskir stjórnmálaflokkar yrðu, fjórum mánuðum fyrir kosningar, að viðurkenna að fjölþjóðlegar aðgerðir með þátttöku Þjóðverja hefðu misheppnast.

„Í 15 ár höfum við barist gegn hryðjuverkum í Afganistan og hættan af hryðjuverkum er meiri nú en þá. Þetta alþjóðlega verkefni hefur algjörlega misheppnast. Margir hafa týnt lífi,“ sagði Riexinger og vísaði einnig til Afgana.

Angela Merkel Þýskalandskanslari er um þessar mundir í Mið-Ameríku í opinberum erindagjörðum. Hún flutti þýska hernum og þjóðinni kveðju á myndbandi í tilefni af „opna húsi“ hersins. Hún sagði að eftir margra ára niðurskurð yrði Bundeswehr, þýski herinn, að auka aðdráttarafl sitt fyrir nýliða á sviðum eins og tölvuöryggi.

Hún sagði að þess yrði vandlega gætt að varnarsamstarf ESB-ríkja félli vel að starfi og stefnu NATO. Hún tók sérstaklega fram að meðal Evrópumanna væri sérstakur áhugi á að stuðla að stöðugleika í Afríku en þaðan streymir fjöldi farandfólks ár hvert til Evrópu, einkum um Ítalíu.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …