Home / Fréttir / Þýskir ráðamenn gagnrýna Grikki fyrir lélega landamæravörslu

Þýskir ráðamenn gagnrýna Grikki fyrir lélega landamæravörslu

Drengur á flótta veifar þýskum fána við hlið landamæravarða.
Drengur á flótta veifar þýskum fána við hlið landamæravarða.

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði við Bild am Sonntag  27. desember að Grikkir yrðu að taka sig á við gæslu landamæra sinna. Þá hefðu grísk yfirvöld árum saman haft að engu reglur um að hælisleitendur ættu að senda inn umsókn um hælisvist í fyrsta Schengen-ríkinu á ferð sinni.

Ráðherrann minnti á ákvörðun þýskra dómstóla um að bannað væri að senda hælisleitendur til baka til Grikklands vegna þess hve Grikkir færu illa með flóttamenn,.

„Grikkir ættu ekki einungis að skella skuldinni vegna eigin vanda á aðra, þeir ættu einnig að líta í eigin barm,“ sagði Schäuble.

Vegna hins mikla fjölda farand- og flóttafólks sem streymir ólöglega til Grikklands frá Tyrklandi hefur ESB sent á vettvang sérþjálfað fólk til að aðstoða við skráningu við komu til landsins, meðal annars með töku fingrafara.

Vegna tregðu grískra yfirvalda við að sætta sig við þessi ESB-afskipti hefur framkvæmdastjórn ESB kynnt tillögu um að senda megi ESB-landamæraverði til lands sem glímir við krísu á ytri landamærum Schengen-svæðisins og ekki þurfi endilega samþykki viðkomandi lands til að unnt sé senda erlenda landamæraverði á vettvang.

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, er einnig harðorður í garð Grikkja í Welt am Sonntag 27. desember. Til Bæjaralands halda flestir úr hópi þeirra sem komast inn á meginland Evrópu um Grikkland, nú um 4.000 manns á dag. Hann gagnrýndi landamæravörslu Grikkja og líkti henni við „farsa“.

Herrmann lagði áherslu á nauðsyn þess að efla landamæravörslu milli Króatíu og Slóveníu. Þetta yrði að gera til að tryggja að allir sem kæmu inn á Schengen-svæðið frá Króatiu yrðu skráðir og komið yrði auga á hugsanlega hryðjuverkamenn.

„Verði þetta ekki gert innan nokkurra vikna verðum við að láta að okkur kveða á okkar eigin landamærum,“ sagði Herrmann og hótaði þannig að hefja gæslu á landamærum Bæjaralands, að minnsta kosti gagnvart Austurríki.

Schäuble sagði að flóttamannastraumurinn til Evrópu leiddi til þess að auka yrði útgjöld til varnarmála, hann sagði:

„Lokamarkmið okkar á að vera sameiginlegur evrópskur her. Nú verjum við fé til 28 herja einstakra landa, fjármunina mætti nýta mun betur sameiginlega.“

Þjóðverjar hafa gripið til aðgerða heima fyrir til að taka á móti um milljón manns á þessu ári, börn eru mörg í hópnum og þarfnast menntunar.

Í Die Welt am Sonntag sagði að 8.500 manns hefðu verið ráðnir til að kenna flóttabörnum þýsku.

Talið er að í ár komi 196.000 börn á flótta undan stríði og fátækt í fyrsta sinn inn í þýska skólakerfið. AFP-fréttastofan segir að 8.264 „sérbekkjum“ hafi verið komið á fót til að auðvelda nýbúunum að ná sömu stöðu og þýskir jafnaldrar þeirra.

Þýsk skólayfirvöld segja að 325.000 börn á skólaaldri hafi komið til Þýskalands á árinu 2015.

Heimild: EUobserver

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …