Home / Fréttir / Þýskir læknar segja Navalníj líklega hafa orðið fyrir eiturárás

Þýskir læknar segja Navalníj líklega hafa orðið fyrir eiturárás

Aleksei Navalníj
Aleksei Navalníj

Læknar á Charité-sjúkrahúsinu í Berlín segja að rússneskum sjúklingi þeirra, Alexei Navalníj, helsta andstæðingi Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, hafi að líkindum verið byrlað eitur. Þeir segja ástand hans alvarlegt en hann sé ekki í brýnni lífshættu.

Birtu læknar Navalníjs tilkynningu mánudaginn 24. ágúst þar sem sagði að sýni gæfu til kynna að hann hefði innbyrt efni sem leiddi til kólínesterasahömlunar en þeir hefðu ekki greint efnið til hlítar.

Efni af þessu tagi finnast í ýmsum lyfjum en einnig í skordýraeitri og taugaeitri.

Flogið var með Navalníj í neyð frá Omsk í Síberíu til Berlínar laugardaginn 22. ágúst á vegum þýskra félagasamtaka sem sinna góðgerðastörfum. Hann hefur verið meðvitundarlaus í öndunarvél síðan fimmtudaginn 20. ágúst.

„Sjúklingurinn er í gjörgæslu og er honum enn haldið sofandi. Líðan hans er alvarleg en á þessari stundu er hann ekki í brýnni lífshættu,“ sagði í tilkynningu læknanna. Þeir meðhöndla hann nú með móteitrinu atrópín.

Ekkert er unnt að fullyrða hver verði bati Navalníjs (44 ára). „Afleiðingar veikindanna eru óljósar og eftirköstin, einkum fyrir taugakerfið, eru óljós á þessari stundu.“ segir í tilkynningu sjúkrahússins.

Fyrr mánudaginn 24. ágúst sagði Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara, að líklega hefði verið vegið að lífi Navalníjs með eitri og hann væri nú undir lögregluvernd. „Það var strax augljóst við komu hans að grípa yrði til verndaraðgerða,“ sagði Seibert.

Liðsmenn úr lögreglu Berlínar og þýsku ríkislögreglunni standa vörð um Navalníj á Charité-sjúkrahúsinu í hjarta Berlínar.

Rússneskir læknar sögðu mánudaginn 24. ágúst að tvær rannsóknir á sýnum úr Navalníj hefðu ekki dregið athygli þeirra að neinum eiturefnum. Það hefði verið mun auðveldara fyrir sig, sögðu rússnesku læknarnir, að grípa á veikindum Navalníjs hefðu þeir fundið eitur í líkama hans. Þá neita læknarnir á neyðarsjúkrahúsinu í Omsk því að þeir hafi starfað undir handarjaðri rússnesku öryggislögreglunnar og þess vegna farið leynt með eitrunina.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sögðu að niðurstöður læknanna við Charité-sjúkrahúsið kölluðu á ítarlega rannsókn viðkomandi yfirvalda í Rússlandi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu þau að í ljósi þess að Navalníj stæði í fremstu röð stjórnarandstæðinga í Rússlandi væri brýnt að þetta afbrot yrði rannsakað til hlítar og á gagnsæjan hátt á heimavelli hans. Það yrði finna óbótamennina og kalla þá til ábyrgðar.

Jürgen Trittin, fulltrúi græningja í utanríkismálanefnd neðri deildar þýska þingsins, Bundestag, sagði við DW-fréttastofuna að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem eitrað væri fyrir stjórnmálamönnum í Rússlandi, einkum andstæðingum Pútins.

Trittin sagði ekki ljóst hver stæði að baki eiturárásarinnar á Navalníj en sagði hana „til vandræða“ fyrir Pútin forseta: „Hann getur ekki verndað fólk sem fylgir ekki sömu línu og hann,“ sagði græninginn.

„Standi hann ekki að baki árásinni hefur hann ekki burði til að hindra slíkar árásir,“ sagði Trittin og minnti á að meira að segja hefði verið ráðist á rússneskan andófsmann í Þýskalandi þegar maður frá Tjsetsjeníu hefði verið myrtur í garði um hábjartan dag og lægju rússneskir útsendarar undir grun vegna morðsins.

„Við verðum að gera öllum ljóst að þessar aðferðir, eiturbyrlanir, morð í löndum okkar eru ólíðandi og geta ekki skapað grundvöll fyrir tvíhliða samskipti milli Rússlands og Evrópusambandsins,“ svaraði Trittin spurningu um hvernig Þjóðverjar ættu að bregðast við eitur-aðförinni að Navalníj. „Við eigum að bregðast við sem Evrópubúar. Þetta er ekki þýskt vandamál. Þetta er vandi allrar Evrópu.“

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …