
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði miðvikudaginn 13. júlí að með úrsögn Breta úr ESB yrði leiðin greiðari fyrir nánara varnarsamstarf innan ESB og mundu Frakkar og Þjóðverjar hafa forgöngu um það. Bretar hefðu „lamað“ allt frumkvæði í þá veru til þessa.
Varnarmálaráðherrann sagði á blaðamannafundi:
„Af eigin reynslu get ég sagt að til þessa hafa Bretar lýst andstöðu við allar slíkar ráðagerðir. Þetta lamaði Evrópusambandið á sviði utanríkis- og öryggismála. Þetta þýðir ekki að aðrar ESB-þjóðir haldi að sér höndum þvert á móti þurfum við að stíga skref fram á við á þessum mikilvægu sviðum.·“
Blaðamannafundurinn var haldinn í tilefni af því að á fundi að morgni miðvikudags 13. júlí samþykkti þýska ríkisstjórnin nýja hvítbók um öryggismál þar sem boðuð er stefna Þjóðverja í hermálum á komandi árum.
Nýja stefnan er sögð marka þáttaskil að því leyti að Þjóðverjar eru „tilbúnir til að taka forystu“ eins og varnarmálaráðherrann orðaði það en þeir sátu til dæmis hjá þegar NATO stjórnaði loftárásum á Líbíu.
Síðasta hvítbók Þjóðverja um hernaðarleg málefni er frá 2006 þegar litið var á Rússa sem samstarfsaðila, borgarstríð var hvorki háð í Sýrlandi né Líbíu, Daesh (Ríki íslams) var ekki komið til sögunnar, átök vegna yfirgangs Rússa gagnvart Úkraínu voru óþekkt og einnig straumur farandfólks til Evrópu.
Þýska fréttastofan dw.de segir að með nýju hvítbókinni 2016 sé boðuð meginstefnubreyting fyrir þýsku þjóðina. Á tíma kalda stríðsins hafi hún verið klofin í tvö ríki, henni hafi verið lýst sem efnahagsrisa og „stjórnmáladvergi“ sem hafi neitað að senda hermenn til þátttöku í hernaðaraðgerðum vegna alþjóðadeilna utan eigin landamæra. Það hafi ekki verið fyrr en árið 1994 sem þýski stjórnlagadómstóllinn heimilaði þýska aðild að alþjóðlegum friðargæslusveitum.
Þýski varnarmálaráðherrann sagði að aðrar þjóðir væntu þess að Þjóðverjar létu meira að sér kveða í utanríkis- og öryggismálum og það krefðist „kúvendingar“.
Nú eru þýskir hermenn við störf á átakasvæðum á Balkan-skaga, í Afganistan og Malí. Þjóðverjar koma að aðgerðum gegn Daesh án þess að beita herafla sínum.