Home / Fréttir / Þýski utanríkisráðherrann segir stöðuna gagnvart Rússum hættulegri nú en í kalda stríðinu – ítrekaðar ögranir gegn Finnum

Þýski utanríkisráðherrann segir stöðuna gagnvart Rússum hættulegri nú en í kalda stríðinu – ítrekaðar ögranir gegn Finnum

Finnskur flugmaður tók þessa mynd af rússneskri orrustuþotu innan finnskrar lofthelgi.
Finnskur flugmaður tók þessa mynd af rússneskri orrustuþotu innan finnskrar lofthelgi.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði við blaðið Bild laugardaginn 8. október að spennan milli Rússa og Vesturlandabúa væri „hættulegri“ núna en í kalda stríðinu. Sama dag birtust fréttir um að Rússar flyttu skotflaugar fyrir kjarnavopn til hólmlendurnar Kaliningrad. Tveimur dögum fyrr höfðu rússneskar orrustuþotur ögrað Finnum.

Rússnesku skotflaugarnar eru við landamæri Póllands og draga þær til Berlínar. Í viðtalinu við Bild sagði Steinmeier að hann fylgdist dapur með því hvernig samskiptin við Rússa versnuðu. „Það er rangt að líkja þessu við kalda stríðið,“ sagði hann. „Ástandið nú á tímum er annars konar og hættulegra.“

Í Bild er einnig rætt við Wolfgang Ischinger, þýskan embættismanna sem var um tíma sáttasemjari vegna Úkraínu. Hann segir: „Töluverð hætta er á hernaðarátökum,“ milli Rússlands og Vesturlanda.

Grunsemdir eru um að tvær rússneskar SU-27 orrustuþotur hafi rofið lofthelgi Finnlands fyrir sunnan Porvoo á tveimur mismunandi tímum fimmtudaginn 6. október. Þótt flugmenn finnska hersins hafi tekið myndir af brotlegu vélunum neita Rússar öllum ásökunum um ólögmætt flug.

Fyrra atvikið varð klukkan 16.43 yfir Finnska flóa suður af bænum Porvoo fimmtudaginn 6. október og síðara atvikið varð klukkan 21.33 á sömu slóðum. Eistlendingar sögðu einnig frá rofi á lofthelgi sinni klukkan 19.28. Rússneska varnarmálaráðuneytið hafnaði þessu frásögnum föstudaginn 7. október og sagði að SU- 27 vélar hefðu fimmtudag og föstudag verið við æfingar á opnu svæði á Finnska flóa.

Finnska landamærastofnunin rannsakar atvikin. Finnska ríkisútvarpið, YLE, segir að sannanir séu traustar því að finnskum flugmönnum hafi tekist að ná myndum af rússnesku vélunum í báðum tilvikum.

Finnska utanríkisráðuneytið tilkynnti síðdegis föstudaginn 7. október að rússneski sendiherrann í Finnlandi hefði verið kallaður til opinbers samtals í ráðuneytinu vegna atvikanna.

Í Finnlandi velta menn því fyrir sér hvort Rússar hafi viljað minna á sig með fluginu í tilefni af því að föstudaginn 7. október var ritað undir samstarfssamning Finna og Bandaríkjamanna um varnarmál.

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finna, sagði að framganga Rússa hefði engin áhrif á samskipti Finna og Bandaríkjamanna.

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finna, sagði föstudaginn 7. október að framferði Rússa og grun um brot þeirra á lofthelgi Finna bæri að líta alvarlegum augum. Atvikin tvö yrðu rannsökuð af nákvæmni. „Það er alvarlegt að um tvö atvik sama dag sé að ræða,“ sagði forsætisráðherrann.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …