Home / Fréttir / Þýski utanríkisráðherrann segir herbúnað Rússa við Úkraínu „óskiljanlegan“

Þýski utanríkisráðherrann segir herbúnað Rússa við Úkraínu „óskiljanlegan“

Annalena Baerbock og Sergeij Lavrov í Moskvu 18. janúar2022.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, ræddi við Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu þriðjudaginn 18. janúar. Að loknum viðræðunum efndu utanríkisráðherrarnir til blaðamannafundar og þar sagði Baerbock að engin „skiljanleg ástæða“ væri fyrir her- og vopnabúnaði Rússa við Úkraínu og það væri „erfitt að líta ekki á hann sem ógnun“.

„Það mun ekkert öryggi ríkja á sameiginlegu evrópsku heimili okkar, gildi þar ekki reglur sem allir geta treyst,“ sagði þýski utanríkisráðherrann. „Við höfum þann eina kost að fylgja þeim jafnvel þótt það kunni að vera dýrkeypt efnahagslega.“ Vísaði ráðherrann þar til þess að ef til vill yrði gripið til öflugra efnahagsþvingana færu Rússar með her inn í Úkraínu.

Í frétt þýsku fréttastofunnar DW af blaðamannafundinum segir að Lavrov hafi hugsanlega slegið sáttatón með því að segja að viðræðurnar við Baerbock sýndu að hugsanlega mætti þoka málum hægt til réttrar áttar. Hann harmaði jafnframt að and-rússneskur boðskapur bærist frá Brussel og frá „hópi and-rússneskra landa í ESB“.

Það kom ekki á óvart að Baerbock hvatti til þess að „nýju lífi“ yrði blásið í svonefnt Normandie-samstarf á milli Úkraínumanna, Þjóðverja, Rússa og Frakka. Lavrov hvatti þýska ráðherrann hins vegar til að láta embættismenn sína þrýsta á ráðamenn í Úkraínu svo að þeir gerðu „loks það sem þeir hefðu skuldbundið sig til að gera“ á fyrri stigum Normandie-viðræðnanna. Þeir ættu til dæmis að tryggja sérstöðu landsvæða í Donbas-héraði þar sem íbúarnir væru hliðhollir Rússum og heimila að gengið yrði til kosninga á þessum svæðum.

Lavrov tók fram að hann og Baerbock væru sammála um að ekkert gæti komið í stað Minsk-samkomulagsins frá 2014 um vopnahlé í austurhluta Úkraínu en hins vegar hefðu verið gerðar „óviðunandi tilraunir“ til að skella skuldinni á Rússa vegna þess að ákvæði samkomulagsins hefðu ekki komið til framkvæmda.

Lavrov hvatti einnig til þess að leyst yrði úr vandamálum vegna Nord Stream 2 gasleiðslunnar frá Rússlandi til Þýskalands. Þýsk eftirlitsstofnun kannar nú hvort garið hafi verið að lögum og reglum við töku ákvarðana og framkvæmd þeirra vegna leiðslunnar.

„Við höfum vakið máls á því við þýska viðmælendur okkar að það hafi öfug áhrif að reyna að gera verkefnið að pólitísku deilumáli,“ sagði Lavrov. „Þetta er mesta viðskipta verkefni síðasta áratugar sem miðar að því að skapa orkuöryggi í Þýskalandi og allri Evrópu.“

Barerbock sagði á hinn bóginn að þýska stjórnin þyrfti „áreiðanlegt Rússland“ sem tryggði „Evrópu gas næstu árin“.

Það kom blaðamönnum á óvart að Lavrov vék að Balkanskaga en Bandaríkjastjórn beitti nýlega refsingu gegn serbneskum leiðtoga, hollum Rússum.

„Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar og Þjóðverja að mál þróist á jákvæðan hátt á Balkanskaga,“ sagði Lavrov.

Baerbock tók mál rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalníjs upp í viðræðunum í Moskvu og gagnrýndi fangelsun hans og einnig lokun Memorial, áhrifamestu, frjálsu samtakanna í Rússlandi.

Baerbock í Kiev

Áður en hún fór til Moskvu var Annalena Baerbock í Kiev, höfuðborg Úkraínu, þar sem hún sagði Þjóðverja mundu „gera allt sitt til að tryggja öryggi Úkraínu“. Hver sá sem réðist á Úkraínu yrði að gjalda þess háu verði.

DW segir að Þjóðverjar hafi lýst áformum sínum um að aðstoða Úkraínumenn á óljósan hátt. Þeir hafi til dæmis ekki látið þeim í té varnarvopn eins og Bretar og Bandaríkjamenn hafi gert. Baerbock boðaði hins vegar þýska aðstoð við að efla netvarnir Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …