Home / Fréttir / Þýski herinn færir út kvíarnar með þátttöku herja annarra landa

Þýski herinn færir út kvíarnar með þátttöku herja annarra landa

Þýskir hermenn á heiðursgöngu.
Þýskir hermenn á heiðursgöngu.

Sameiginlegur her Evrópusambandsríkja hefur lengi verið á teikniborðinu en verkefnið hefur skilað frekar litlum árangri hingað til vegna deilna um hvernig standa ætti að því.  Í mars síðastliðnum var herstjórnarstöð ESB reyndar tekin í notkun en þar vinna aðeins 30 manns og stjórnstöðin sér aðeins um verkefni í Malí, Sómalíu og Miðafríkulýðveldinu.

Sum ESB ríki hafa ætíð verið hrifnari af sameiginlegum herafla heldur en önnur og nú færir vefsíða  Foreign Policy fréttir af því að Þýskaland, sem lengi hefur stutt þessa hugmynd, hafi hrundið af stað verkefni sem kunni að leiða til aukinnar samvinnu herja bandalagsríkjanna.  Verkefnið gengur út á það að hersveitir frá ESB ríkjum sameinast þýska sambandshernum, Bundeswehr, og nú þegar hefur Holland sent tvö herfylki til þess að taka þátt í verkefninu og nýlega ákváðu Tékkar og Rúmenar að senda eitt herfylki hvor þjóð.   Hermennirnir fá tækifæri til að nýta hátækniherbúnað sem Þjóðverjar hafa upp á að bjóða og þeir njóta í staðinn starfskrafta þeirra.

Bæði Þjóðverjar og þátttökuríki sjá kosti við samstarfið.   Helsti kosturinn fyrir þátttökuríkin er sá að með þessu geta þau fengið Þjóðverja til þess að taka meiri þátt í öryggismálum Evrópu án þess að þurfa að biðja þá að stækka Bundeswehr en af sögulegum ástæðum er það mál mjög viðkvæmt innan Þýskalands.  Samstarf við Bundeswehr styrkir líka hernaðarmátt þátttökuþjóðanna. Þjóðverjar aftur á móti geta haldið hugmyndinni um sameiginlegan Evrópuher lifandi auk þess sem þeir geta aukið vægi sitt innan Atlantshafs­bandalagsins með því að styrkja herafla sinn.  Ekki er vanþörf á því.

Árið 1989 vörðu Vestur-Þjóðverjar 2,7 prósentum af landsframleiðslu í varnarmál en árið 2000 var  talan komin niður í 1,4 prósent og á árunum 2013-2016 fór hún í 1,2 prósent.  Það þarf því ekki að koma á óvart að í skýrslu sem lögð var fyrir þýska sambandsþingið árið 2014 var dregin upp dökk mynd af ástandi heraflans.

Ríki NATO settu sér það markmið á leiðtogafundi bandalagsins í Wales árið 2014 að eftir áratug myndu útgjöld þeirra til varnarmála ná 2 prósentum af landsframleiðslu.  Þjóðverjar hafa að undanförnu aukið útgjöld sín en Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði nýlega að það væri algerlega óraunhæft að ætla að Þjóðverjar myndu ná þessu takmarki.  Þau ummæli kunna reyndar að endurspegla þá spennu sem er í þýskum stjórnmálum í aðdraganda kosninganna í haust en sósialdemókratar, flokkur Sigmars Gabriels, vilja ekki eins mikil útgjöld til varnarmála og samstarfsflokkur þeirra kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel, samkvæmt Financial Times.

Ýmis önnur Evrópuríki líta samstarfsverkefnið líka jákvæðum augum nú þegar líkur eru á því að Bretar séu að ganga út úr ESB minnug þess að hitt megin herveldið í Evrópu, Frakkland, hefur oft verið tregt í taumi þegar kemur að verkefnum á vegum NATO.  Það má því búast við því að umfang verkefnisins stækki á næstu árum.

Þýski fræðimaðurinn Robin Allers segir að hentugast sé fyrir Þjóðverja að vinna með Norðurlandaþjóðunum ekki síst vegna þess að þau nota nú þegar umtalsvert af þýskum hergögnum.   Framtíð verkefnisins veltur þó að miklu leyti á því hvað almenningi muni finnast um það.  Hingað til hefur farið frekar hljótt um það og því vita fáir af því en það kann að breytast ef fleiri þátttökuþjóðir bætast í hópinn.

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …