Home / Fréttir / Þýski herinn efldur með breytingu á stjórnarskránni

Þýski herinn efldur með breytingu á stjórnarskránni

Olaf Scholz kanslari í þýska þinginu.

Neðri deild þýska þingsins, Bundestag, samþykkti föstudaginn 3. júní að breyta stjórnarskrá Þýskalands til að koma á fót 100 milljarða evru sjóði til að styrkja varnir landsins. Breytingin var samþykkt með 567 atkvæðum gegn 96, alls 20 greiddu ekki atkvæði. Tillagan gengur nú til efri deildar þingsins, Bundesrat.

Græninginn Annalena Baerbock utanríkisráðherra sagði í þinginu: „Nú er runnin upp stundin þegar við Þjóðverjar erum til taks ef Evrópa þarfnast okkar.“

Það liðu aðeins þrír dagar frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 þar til jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz Þýskalandskanslari hét því að ákveðin yrði sérstök fjárveiting, 100 milljarðar evra, til að efla þýska herinn og búa hann nýjum tækjum á næstu árum.

Síðan hefur Scholz verið sakaður um að láta ekki nóg að sér kveða til stuðnings Úkraínustjórn, hann skorti vilja til að taka af skarið um afhendingu öflugra vopna til hers Úkraínu.

Ákvörðun Bundestag 3. júní gerir Þjóðverjum kleift að standa við NATO-skuldbindingu sína um að verja að meðaltali 2% af vergri landsframleiðslu á ári til varnarmála.

Rússnesk stjórnvöld brugðust mjög illa við ákvörðun þýsku þingmannanna og sökuðu þá um að stefna að „endurhervæðingu“. Gaf orðalag Rússa til kynna að hafin væri vegferð í sömu átt og nazistar fóru á sínum tíma.

Stærsti hluti þýsku fjárveitingarinnar – 40,9 milljarðar evra – rennur til flughersins vegna kaupa á 35 bandarískum F-35 orrustuþotum, 15 Eurofighter þotum og 60 Chinhook flutningaþyrlum.

Flotinn fær tæpa 20 milljarða evra í sinn hlut, einkum vegna nýrra korvetta, freigátna og kafbátar af 212-gerð. Með rúmlega 16 milljarða evru fjárveitingu á að fjölga Marder-flutningaskriðdrekum hersins og Fuchs brynvörðum vögnum.

Scholz sagði að brátt mundu Þjóðverjar ráða yfir stærsta venjulega herafla Evrópu innan NATO.

Tekin verða lán til að fjármagna sjóðinn. Vegna lántökunnar var nauðsynlegt að fá undanþágu frá stjórnarskrárbundnu „skuldaþakinu“ sem takmarkar lántökuheimild ríkisstjórnarinnar. Stjórnarskránni verður ekki breytt nema tveir-þriðju þingmanna samþykki breytinguna þess vegna urðu stjórnarflokkarnir þrír að semja um hana við kristilega sem eru í stjórnarandstöðu.

Þýski herinn hefur minnkað mikið frá því kalda stríðinu þegar liðsmenn hans voru um 500.000 (árið 1990) en þeir eru um 200.000 núna. Floti og flugher hafa einnig dregist saman og tækjabúnaður úrelst.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …