Home / Fréttir / Þýski herinn býr sig undir aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum

Þýski herinn býr sig undir aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum

Ursula van der Leyen varnarmálaráðherra  Þýskalands á heræfingu.
Ursula von der Leyen varnarmálaráðherra Þýskalands á heræfingu.

Innan skamms mun Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands (kristilegur demókrati, CDU), ákveða hvernig staðið verður að æfingum þýskra hermanna vegna aðildar þeirra að aðgerðum innan Þýsklands gegn hryðjuverkamönnum. Samstarfsmenn CDU í ríkisstjórn, jafnaðarmenn (SPD), og stjórnarandstaðan eru andvíg því að þetta skref sé stigið.

Varnarmálaráðherrann sagði við dagblaðið Bild mánudaginn 1. ágúst að á síðsumarsfundi með innanríkisráðherrum einstakra sambandslanda Þýskalands yrði rætt hvernig haga ætti æfingum hers og lögreglu. Það yrði að ákveða boðleiðir á hættustundu og hve mikill mannafli ætti að verða til reiðu.

„Á hættustundu er það lögreglan sem ákveður hvað gera þurfi til að brjóta hryðjuverkamenn á bak aftur. Stjórnlagadómstóllinn hefur hins vegar tekið af skarið um að við sérstakar aðstæður megi einnig beita hernum,“ sagði von der Leyen. Það væri því „mikilvægt og rétt“ að innan þýska hersins yrði komið á fót gagn-hryðjuverkasveit.

Þýska ríkisstjórnin kynnti um miðjan júlí nýja öryggis- og varnarmálastefnu. Þar er gert ráð fyrir að unnt verði að beita hernum gegn hryðjaverkamönnum innan þýsku landamæranna. Þetta er nýmæli í Þýskalandi en í öðrum löndum er hernum beitt innan landamæra viðkomandi ríkis gegn hryðjuverkamönnum. Má þar nefna Frakkland. Þjóðverjar hafa hafnað slíkri beitingu eigin hers frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar vegna sögulegrar reynslu sinnar.

Oliver Malchow, formaður samtaka þýskra lögreglumanna, gagnrýnir varnarmálaráðherrann fyrir ákvörðun hennar. Það sé engin ástæða fyrir stjórnvöld að láta herinn blanda sér í þýsk innanríkismál. „Herinn á að einbeita sér að ytri vörnum landsins og á verkefnin sem þingið hefur falið honum,“ segir Malckow.

„Við [í lögreglunni] höfum allt annað umboð en herinn,“ sagði hann. Innri öryggisgæsla ríkisins hvíldi á lögreglunni en ekki á hernum. Hryðjuverkamenn væru morðingjar í augum lögreglu en ekki stríðsmenn. Í slíkum tilvikum yki herinn ekkert á öryggi borgaranna.

Þá bæri að hafa í huga að lögregla hlyti allt aðra þjálfun en herinn. Ekki væri unnt að leggja grunnþjálfun þeirra að jöfnu.

Þegar Malchow var minntur á að til dæmis í Brussel tryggðu hermenn nú öryggi á götum úti, svaraði hann: „Það vekur öryggisleysi hjá mér sem lögreglumanns.“ Nærvera hermanna á götum úti gefi til kynna að ríkið hafi ekki lengur burði til að tryggja öryggi. „Stríðið er í Aleppo, ekki hér,“ sagði hann.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …