Home / Fréttir / Þýskar orrustuþotur æfa skjót varnarviðbrögð frá Keflavíkurflugvelli

Þýskar orrustuþotur æfa skjót varnarviðbrögð frá Keflavíkurflugvelli

Þýski flugherinn birti þessa mynd með frétt sinni um orrustuþotur sínar á Íslandi.

Á vefsíðu NATO birtist miðvikudaginn 2. ágúst frétt um að þýski flugherinn hefði sent orrustuþotur til Íslands til að stunda það sem á ensku er kallað Agile Combat Employment (ACE) – skjót orrustuviðbrögð. Í fréttinni segir að 1. til 10. ágúst verði þoturnar notaðar til æfinga með Landhelgisgæslu Íslands og nálægum bandalagsþjóðum.

Dagana 26. til 28. júlí flugu sex þýskar Eurofighter-þotur og tvær A400 flutningavélar til Keflavíkurflugvallar með það fyrir augum að búa sig undir æfinguna Rapid Viking 2023 á Íslandi.

Í frétt frá þýska flughernum segir að 50 manna lið með sex Eurofighter-þotum í hánorðri sýni vilja Þjóðverja og getu til að bregðast á skjótan hátt við með flugher sínum án mikils umbúnaðar hvar sem þess kann að verða þörf.

Marco Brunhofer undirofursti yfirmaður flugsveitarinnar segir: „Við erum á Íslandi í tvær vikur og ætlum að fara í allt að átta þjálfunarflug á dag til að kynnast loftrými Íslands og starfsliði í NATO Control and Reporting Centre Keflavik, (samþættu loftvarnakerfi NATO Keflavík) sem mun fylgjast með flugi okkar.“

Brunhofer segir að breytt staða öryggismála í heiminum hafi áhrif á norðurslóðum og í ljósi þeirra breytinga geti þýski flugherinn lagt mikilvægan skerf af mörkum til að efla öryggi Íslands og fullveldi og styrkja fælingar- og varnarmátt NATO. Hann minnir á það sé hlutverk flugherja að verða fyrstir á vettvang og bregðast við hættu með nauðsynlegum þunga. Æfingunni Rapid Viking sé ætlað að þjálfa mesta viðbragðsþunga með sem minnstum mannafla og tækjakosti.

Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri varnarmálasviðs landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, segist fagna komu Þjóðverjanna og hún gefi mikilvægt tækifæri til að dýpka tvíhliða samstarf við þá og árétta um leið mikilvægi þess á hernaðarlega mikilvægu svæði fyrir NATO.

Í frétt þýska flughersins á vefsíðu NATO segir að för þýsku vélanna til Íslands sé sjálfstætt tvíhliða verkefni. Það sé til hliðar við en jafnframt til stuðnings hefðbundinni loftrýmisgæslu flugherja frá NATO-ríkjum frá Íslandi. Þar sé um viðvarandi friðartíma verkefni að ræða sem sé sérhannað fyrir Ísland og tryggi að reglulega komi NATO orrustuþotur til Keflavíkur til að tryggja öryggi í loftrými Íslands.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …