Home / Fréttir / Þýskar njósnastofnanir hlera fjarskipti bandamanna

Þýskar njósnastofnanir hlera fjarskipti bandamanna

Þýska ríkisstjórnin
Þýska ríkisstjórnin

Þýskar njósnastofnanir hleruðu fjarskipti margra nánustu bandamanna Þjóðverja í Evrópu þar á meðal Frakka, Svía, Ítala, Spánverja og Breta að sögn Der Spiegel, þýska vikublaðsins, laugardaginn 8. nóvember.

Meðal þeirra sem voru undir smásjánni voru ýmis erlend sendiráð í Þýskalandi og alþjóðastofnanir á borð við Rauða krossinn.

Áður en þessi nýja frétt birtist hafði verið sagt frá því að BND (Bundesnachrichtendienst), þýska leyniþjónustan sem heyrir beint undir kanslaraskrifstofuna í Berlín, hafi hlerað embættismenn franska utanríkisráðuneytisins og embættismenn framkvæmdastjórnar ESB í þágu NSA, Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Án þess að tilgreindir séu heimildarmenn segir í Der Spiegel „Bnd hefur skipulega njósnað um „bandamenn“ um heim allan þar á meðal innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, Póllands, Austurríkis, Danmerkur og Króatíu.“

Þá er sagt að fylgst hafi verið með bandaríska sendiráðinu gagnvart Evrópusambandinu í Brussel og Sameinuðu þjóðunum í New York auk ýmissa sendiráða í Þýskalandi eins og Bandaríkjanna, Frakklands, Bretlands, Svíþjóðar, Portúgals, Grikklands, Spánar, Ítalíu, Sviss, Austurríkis og Páfagarðs.

Árið 2013 var fyrst upplýst um njósnir sem næðu til mikils fjölda fólks þegar Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður NSA, birti gögn sem hann hafði stolið í starfi sínu. Þá mótmæltu Þjóðverjar harðlega þegar fréttir bárust af stórfelldum hlerunum NSA í Þýskalandi.

„Það er óviðunandi að njósnað sé um vini,“ sagði Angela Merkel Þýskalandskanslari þegar upplýst var að farsími hennar hefði verið hleraður.

Þá var jafnframt skýrt frá því í þýskum fjölmiðlum að þýskar njósnastofnanir hefðu fengið njósnabúnað frá NSA í skiptum fyrir aðgang að upplýsingum sem jafngilti því að BND og BfV (Bundesamt für Verfassungsschutz ), það er Sambandstofnunin til verndar stjórnarskránni, þýska öryggis- og leyniþjónustan á heimavelli, hefðu aðstoðað NSA við njósnastarfsemi.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …