
Stuðningur við Angelu Merkel Þýskalandskanslara hefur minnkað um 12 stig eftir röð ódæðisverka sem hafa skekið Þýskaland. Þetta sýnir ný könnun DeutschlandTrend. Stuðningur við Merkel er nú 47% en var 59% í byrjun júlí. Frá niðurstöðum könnunarinnar er sagt á vefsíðu dw.de föstudaginn 5. ágúst.
Merkel hefur ekki hvikað frá stefnu sinni í útlendingamálum þrátt fyrir fréttir af ódæðum sem unnin voru af mönnum sem höfðu sótt um hæli í Þýskalandi. Á blaðamannafundi fimmtudaginn 28. júlí sagðist hún hafa tekið rétta ákvörðun í fyrra þegar hún opnaði Þýskaland fyrir hundruð þúsunda manna sem sóttu þar um hæli á árinu 2015.
Alls sögðust 65% svarenda óánægðir með útlendingastefnu Merkel. Hins vegar sögðu 34% að stefnan væri rétt. Þeir sem hafa þessa skoðun hafa aldrei verið færri síðan tekið var til við að spyrja reglulega um þetta haustið 2015.
Könnunin sýnir að stuðningur við Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjarlands og leiðtoga kristilegra sósíalista (CSU), hefur aukist verulega eða um 11 stig í 44%. CSU er hefðbundinn samstarfsflokkur kristilegra demókrata (CDU), flokks Merkel. Í könnuninni kom fram að 64% telja að forystumenn CSU leggi sig meira fram um að tryggja stöðu eigin flokks en rikisstjórnar Merkel.
Þegar spurt var um afstöðu til flokka lýstu 34% stuðningi við CDU/CSU og 22% við jafnaðarmenn (SPD), hinn stjórnarflokkinn. Græningjar sem eru í stjórnarandstöðu njóta 13% stuðnings og Linke, vinstrisinnar, 9% stuðnings. Tveir flokkar eiga ekki menn á sambandsþinginu: Alternative für Deutschland (AfD) mælist með 12% fylgi, flokkurinn er andvígur útlendingastefnu Merkel, og frjálsir demókratar (FDP) mælast með 5%.
Frank-Walter Steinmeier (SPD) utanríkisráðherra er vinsælasti stjórnmálamaður Þýskalands með 71% stuðning og Wolfgang Schäuble (CDU) fjármálaráðherra næstvinsælastur með 60% stuðning.
Könnunin var gerð 1. og 2. ágúst og voru 1.003 kjósendur spurðir.