Home / Fréttir / Þýskaland: Tímabundin sátt milli CDU og CSU í útlendingamálum – Trump óboðinn á vettvang

Þýskaland: Tímabundin sátt milli CDU og CSU í útlendingamálum – Trump óboðinn á vettvang

grenzschilder

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, sömdu mánudaginn 18. júní um að bíða eftir niðurstöðu leiðtogaráðs ESB áður en hrundið yrði í framkvæmd hertri útlendingastefnu í Þýskalandi. Leiðtogaráðið kemur saman 28. og 29. júní. Merkel taldi að hugmyndir Seehofers kynnu að raska grundvellinum undir stefnu ESB í útlendingamálum.

Þýskir fréttaskýrendur segja að með þessu hafi Merkel sigrað, að minnsta kosti tímabundið, í deilu sinni við Seehofer en auk þess að vera innanríkisráðherra í stjórn Merkel er hann leiðtogi Kristilega sósíalflokksins (CSU) í Bæjarlandi sem er systurflokkur Kristilega demókrataflokksins (CDU), flokks Angelu Merkel.

Spennan vegna útlendingamálanna innan ríkisstjórnar Merkel hófst opinberlega þriðjudaginn 12. júní þegar Seehofer kynnti 63. liða áætlun um breytta framkvæmd landamæravörslu og aðgerða í útlendingamálum. Merkel andmælti áformum um að hafna öllum hælisleitendum við þýsku landamærin sem hefðu upphaflega skráð sig í öðru ESB- eða Schengen-landi. Ákvörðun um þetta og framkvæmd hennar yrði að taka í samráði við ríkisstjórnir annarra ESB-landa.

Undir lok síðustu viku voru taldar líkur á að mánudaginn 18. júní mundi Seehofer hafa óskir Merkel að engu og það kynni að leiða til stjórnarslita og jafnvel slita á áratuga langri stjórnmálasamvinnu CSU og CDU. Til þess kynni að koma að CSU yrði aðeins flokkur innan Bæjarlands sem mætti sín lítils í Berlín og CDU byði fram til höfuðs CSU í Bæjarlandi.

Angela Merkel sagði á blaðamannafundi í Berlín síðdegis mánudaginn 18. júní að báðir flokkar, CSU og CDU, hefðu sameiginlegt markmið í útlendingamálum, þeir vildu fækka þeim sem kæmu inn í landið sem hælisleitendur og bæta aðlögun þeirra sem í landinu eru að þýskum venjum og siðum. Flokkarnir ætluðu að vinna að þessu sameiginlega. Hún gaf jafnframt til kynna að hún mundi ekki samþykkja neina óígrundaða stefnu CSU í málinu, ekkert mundi „gerast sjálfkrafa“ varðandi lokun landamæra fyrir hælisleitendum að loknum fundi leiðtogaráðs ESB.

Á meðan Merkel sat fyrir svörum blaðamanna í Berlín efndi Horst Seehofer til eigin blaðamannafundar í München, höfuðborg Bæjarlands, þar sem hann sagði að kanslarinn hefði samþykkt 62,5 punkta af 63 í áætlun hans um breytingar í hælis- og útlendingamálum. Hann sagði jafnframt að ríkisstjórnina skorti stjórn á málefnum innflytjenda og enn væri mikið verk óunnið.

Seehof taldi að „grundvallar-ágreiningur“ væri á milli sín og Merkel varðandi gæslu landamæranna og brottrekstur hælisleitenda. „Málið snýst um svigrúm til aðgerða í réttarríki og jafnframt trúverðugleika flokks míns,“ sagði Seehofer. CSU vildi evrópska lausn en væri hún ekki fyrir hendi yrði að vísa fólki frá landamærum Þýskalands. „Ég er að minnsta kosti staðráðinn í að þannig verði staðið að málum náist ekki neinn árangur í samningum á vettvangi ESB,“ sagði hann. Það væri „hneyksli“ að ekki hefði eitthvað verið gert í þessum málum fyrir nokkrum árum.

Ýmsir hafa orðið til þess að vara við hugmyndum Seehofers sem þeir telja stangast á við lög. Í þeim hópi er Gerhart Baum, fyrrverandi innanríkisráðherra Þýskalands.

Ýmsar fréttastofur hafa eftir heimildarmönnum innan raða CSU að Seehofer ætli að hrinda ákvörðun sinni framkvæmnd stig af stigi. Fyrsta skrefið yrði að hafna aðeins hælisleitendum sem hefðu áður verið fluttir úr landi eða hefði verið bannað að koma til landsins.

Þá er sagt að CSU vilji þrýsta á Angelu Merkel og í því skyni verði hafinn undirbúningur að hertri landamæravörslu, takist ekki ESB-samkomulag eða haldi það ekki.

Merkel ætlar að leita samkomulags um aðgerðir á næstu tveimur vikum meðal annars með tvíhliða samkomulagi við ESB-ríki, fyrst við Ítala og Austurríkismenn. Áætlun Seehofers og framkvæmd hennar hefur mest áhrif á þessi ríki. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, kom til Berlínar síðdegis mánudaginn 18. júní.

Í grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung mánudaginn 18. júní segist Seehofer telja nauðsynlegt að finna evrópska lausn í útlendingamálunum en hann yrði að hafa heimild til að snúa fólki frá Þýskalandi ef það gæti ekki bent á evrópsk lagaákvæði máli sínu til stuðnings.

Flokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) sækir að Seehofer og flokki hans CSU frá hægri fyrir sambandslandskosningarnar í Bæjarlandi í október 2018. Talið er að helsta aðferðin til að halda fylgi frá AfD sé að fylgja harðri útlendingastefnu.

Markus Söder, forsætisráðherra Bæjarlands og keppinautur Seehofers innan CSU, dregur í efa að mikið verði afgreitt á næsta leiðtogaráðsfundi ESB. Undanfarin þrjú ár hefði ekki reynst unnt að ná neinu samkomulagi um útlendingamál þar. „Við erum sannfærðir um að mikilvægt sé að hrinda í framkvæmd breytingum á hælismálum í Þýskalandi,“ sagði Söder áður en hann fór á fund hjá CSU að morgni mánudags 18. júní.

Afskipti Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti sá ástæðu til þess mánudaginn 18. júní að blanda sér beint og óboðinn í þýsku deilurnar um útlendingamál. Hann sagði „mikil mistök“ að hleypa milljónum af farand- og flóttafólki til Evrópu.

Trump sagði þýska forystumenn tapa stuðningi almennings vegna útlendingamálanna. Á Twitter sagði Trump:

„Þýskur almenningur snýst gegn forystumönnum sínum þegar útlendingamál skekja þegar veigalitla samsteypustjórn í Berlín.“

Forsetinn sagði einnig að glæpir ykjust í Þýskalandi og bætti síðan við að það hefðu verið „mikil mistök alls staðar í Evrópu að hleypa inn milljónum manna sem [hefðu] á svo öflugan og ofbeldisfullan hátt breytt menningu þeirra!“

Trump flutti síðan bandarískum kjósendum þessi varnaðarorð: „Við viljum ekki að sama gerist hér í innflytjendamálum og gerst hefur í Evrópu!“

Heimafyrir sætir Trump vaxandi gagnrýni vegna stefnu sinnar í málefnum innflytjenda sem meðal annars hefur leitt til þess að börn eru tekin frá foreldrum sínum þegar þeir koma ólöglega inn í Bandaríkin. Er börnunum komið fyrir í sérstökum geymsluhúsum.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …