Home / Fréttir / Þýskaland: Stjórnarflokkarnir semja um málamiðlun vegna farand- og flóttafólks

Þýskaland: Stjórnarflokkarnir semja um málamiðlun vegna farand- og flóttafólks

Horst Seehofer og Angela Merkel.
Horst Seehofer og Angela Merkel.

Stjórnarflokkarnir í Þýskalandi komust fimmtudaginn 5. nóvember að samkomulagi um hvernig staðið skuli að móttöku farand- og flóttafólks til landsins. Ákveðið var að opna fimm skrásetningarstöðvar í landinu til að hraða afgreiðslu hælisumsókna og brottvísun þeirra sem eiga ekki rétt á hælisvist.

Jafnaðarmenn (SPD) samstarfsflokkur kristilegra í þýsku ríkisstjórn Angelu Merkel (CDU) höfnuðu tillögu kanslarans um „biðsvæði“ flóttamanna við landamæri Austurríkis, líktu jafnaðarmenn slíkum svæðum við fangabúðir.

Niðurstaðan í viðræðum formanna stjórnarflokkanna var að koma á fót fimm móttöku- og skráningarstöðvum innan Þýskalands. Þar yrðu þeir stöðvaðir og settir í bið til brottvísunar sem koma frá löndum sem talin eru örugg, einkum Balkanlöndunum, þar yrði þeim einnig haldið sem neita að fara að ákvæðum útlendingalaga um hælisleitendur.

Farandfólki verður ekki haldið nauðugu í þessum stöðvum en yfirgefi fólkið svæðið þar sem stöðvarnar eru fyrirgerir það rétti sínum til félagslegra bóta.

Horst Seehofer, formaður Kristilega sósíalistaflokksins (CSU) í Bæjaralandi, var helsti talsmaður „biðsvæðanna“ innan ríkisstjórnarinnar. Hann ætlar að kanna réttarstöðu Bæjaralands og skyldur gagnvart aðkomufólki, jafnvel fyrir dómstóli.

Merkel fagnaði áfanganum sem náðist fimmtudaginn 5. nóvember sem „mikilvægu skrefi“.

Angelu Merkel (CDU), Horst Seehofer (CSU) og Sigmar Gabriel (SPD) mistókst sunnudaginn 1. nóvember að komast að samkomulagi um leið til að hafa betri stjórn á straumi aðkomufólks til Þýskalands. Stjórnmálaskýrendur telja ágreininginn um málið hinn alvarlegasta sem Merkel hefur glímt við á 10 ára kanslaraferli sínum. Hina sameiginlegu niðurstöðu megi í raun rekja til þess að enginn stjórnaflokkanna vilji að stjórnin falli.

Málamiðlunin er talin sigur fyrir jafnaðarmenn samhliða því sem Merkel hafi treyst forystuhlutverk sitt að nýju með því að hafa vald á CSU-mönnum frá Bæjaralandi.

Ætlunin er að hraða mjög meðferð hælismála. Stefnt er að því að ljúka málum á einni viku í stað þess að afgreiðsla umsókna taki marga mánuði. Verði niðurstöðu áfrýjað á að ljúka meðferð þess máls innan

tveggja vikna.

Þá verður fjölskyldusameining gerð erfiðari fyrir þá sem hafa dvalarrétt í Þýskalandi en ekki rétt á alþjóðlegri vernd.

Merkel sagði að farandfólki sem kæmi til landsins í þeim tilgangi að afla sér tekna yrði brottvísað innan þriggja vikna.

Nýjustu tölur frá þýska innanríkisráðuneytinu sýna að alls hafa 758.000 manns beðið um hæli í Þýskalandi það sem af er árinu, hafa þeir aldrei verið fleiri. Líklegt er að í lok árs verði þessi tala komin yfir eina milljón, í síðasta mánuði einum komu 181.000 manns. Embættismenn ESB spá því að á árunum 2015, 2016 og 2017 komi alls 3 milljónir flóttamanna til ESB.

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …