Home / Fréttir / Þýskaland: Stjórnarflokkana greinir á um flóttamannastefnu

Þýskaland: Stjórnarflokkana greinir á um flóttamannastefnu

Flóttamenn óska eftir skráningu við komuna til Þýskalands.
Flóttamenn óska eftir skráningu við komuna til Þýskalands.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðirnar (UNHCR) í Genf upplýsti mánudaginn 2. nóvember að í október 2015 hefðu 218.394 flóttamenn lagt leið sína yfir Miðjarðarhaf til Evrópu. Þessi fjöldi er hinn mesti á einum mánuði og nálgast hann heildarfjölda flóttamanna allt árið 2014.

Flestir flóttamannanna vilja setjast að í Þýskalandi og þar magnast pólitísk spenna vegna þeirra. Um helgina reyndu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, Angela Merkel frá Kristilegum demókrötum (CDU) Horst Seehofer frá Kristilegum sósíalistum (CSU) (Bæjaralandi) og Sigmar Gabriel frá Jafnaðarmönnum (SPD) árangurslaust að ná samkomulagi um stefnu í flóttamannamálum.

Kristilegu flokkarnir vilja að opnaðar verði sérstakar „biðstöðvar“ á landamærunum. Þar verði umsóknir hælisleitenda hraðskoðaðar og þeim vísað tafarlaust á brott sem eiga augljóslega ekki rétt til hælisdvalar.  Jafnaðarmenn eru andvígir tillögunum um þetta og á því strandar. Sækja talsmenn kristilegra hins vegar hart að jafnaðarmönnum að samþykkja tillögur sínar enda séu þær í samræmi við reglur ESB. Jafnaðarmenn segja að komi þessar sérstöku „biðstöðvar“ til sögunnar jafngildi það því að margar þúsundir mann verði teknar höndum og haldið í sérstökum búðum.

Þá segja jafnaðarmenn að ekki sé unnt að grípa til sambærilegra aðgerða við mörg hundruð kílómetra löng landamæri og í flugstöðvum þar sem um tilltölulega fáa hælisleitendur sé að ræða í takmörkuðu rými og því unnt að setja ferðum fólks skorður á tiltölulega einfaldan hátt. Við landamæri á landi yrði ekkert gert nema með því að reka fólk saman í búðir þar sem það yrði síðan dregið í dilka.

Jafnaðarmenn vilja að fjölgað verði skrásetningarstöðvum fyrir hælisleitendur innan Þýskalands, ein slík stöð verði í hverju sambandslandi (16), og skipulega tekið á móti fólki sem þangað kemur og leyst úr umsóknum þeirra. Þeir sem ekki láti skrá sig í þessum stöðvum tapi réttindum til félagslegrar aðstoðar. Segja jafnaðarmenn að í skrásetningastöðvunum eigi að starfa embættismenn með vald til að úrskurða um brottvísun einstaklinga sem reyni að blekkja eða skorti réttarstöðu sem hælisleitandi. Nota jafnaðarmenn orðið „fjöldafangabúðir“ um tillögu kristilegra og segjast andvígir slíkum búðum við landamæri Þýskalands.

Í síðustu viku var Horst Seehofer, leiðtogi CSU, harðorður um stefnu Angelu Merkel (CDU) í flóttamannamálum, hann setti Merkel í raun úrslitakosti sem hún hafnaði tafarlaust. Á fundi Seehofer og Merkel sunnudaginn 1. nóvember urðu þau sammála um stefnuskjal í flóttamannamálunum og lýsti Seehofer ánægju yfir niðurstöðunni. Markmið beggja væri að setja skorður við fjölgun flóttamanna. Gert er ráð fyrir að skerða rétt til fjölskyldusameiningar með tveggja ára tímamörkum auk þess munu austurrískir og þýskir lögreglumenn vinna saman við fimm landamærahlið á mörkum Austurríkis og Þýskalands.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …