Home / Fréttir / Þýskaland: Seehofer boðar afsögn sem innanríkisráðherra og leiðtogi CSU

Þýskaland: Seehofer boðar afsögn sem innanríkisráðherra og leiðtogi CSU

Horst Seehofer
Horst Seehofer

Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands og leiðtogi Kristilegra sósísaldemókrata (CSU) í Bæjaralandi, tilkynnti að kvöldi sunnudags 1. júlí á fundi með flokksfélögum í München  að hann ætlaði að segja af sér sem ráðherra og leiðtogi flokks síns vegna ágreinings við Angelu Merkel, Þýskalandskanslara og leiðtoga Kristilegra demókrata (CDU), um útlendingamál.

Deila þeirra hefur opinberlega staðið í tæpar tvær vikur og að lokum deildu þau um túlkun á niðurstöðu fundar leiðtogaráðs ESB föstudaginn 29. júní. Fyrir leiðtogaráðsfundinn töldu margir fréttaskýrendur að Seehofer hefði sett Merkel úrlistakosti. Kanslari Þýskalands á hins vegar lokaorðið um stefnu stjórnar sinnar og störf einstakra ráðherra. Valdi Seehofer þann kost að segja af sér.

Horst Seehofer lýsti ætlan sinni um afsögn á fundi með þingflokki CSU á sambandsþinginu í Berlín og forystusveit CSU á fundi í München sunnudaginn 1. júlí.

Seehofer hefur setið sem innanríkisráðherra í tæplega 100 daga í samsteypustjórn CDU/CSU og jafnaðarmanna (SPD). Hann hefur verið leiðtogi CSU síðan 2008.

Forystumenn CSU sátu tæpa átta klukkustundir á fundi og ræddu ágreinininn við CDU um útlendingamál. Þar lýsti Seehofer því sjónarmiði að Þjóðverjum bæri frekar að móta eigin stefnu og framkvæma hana en fara að samþykkt leiðtogaráðs ESB frá 29. júní.

Die Welt segir að Seehofer hafi metið stöðuna innan CSU á þann veg að hann nyti þar ekki nægilegs stuðnings til að standa gegn afstöðu Merkel um að leiðtogaráðsfundur ESB hefði skapað Þjóðverjum nægilegt svigrúm til eigin ákvarðana í útlendingamálum.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …