Mikil heræfing, Defender Europe 20 er hafin. Fyrstu bandarísku hermennirnir, skriðdrekar og önnur tæki komu til Bremerhaven í Þýskalandi föstudaginn 21. febrúar. Rúmlega 20.000 bandarískir hermenn með um 20.000 tækjum verða fluttir yfir Atlantshaf vegna æfingarinnar. Ekki hefur verið efnt til viðameiri æfingar af þessu tagi í Evrópu í rúm 25 ár.
Hermennirnir og tækin verða flutt til sex hafna á meginlandi Evrópu. Þaðan verður haldið til móts við evrópskan herafla á ólíkum æfingastöðum, segir í tilkynningu bandaríska landhersins,
Stór hluti æfinganna verður í Póllandi, Lettlandi, Litháen og Eistlandi.
Með þessum stórflutningum á liðsafla yfir Atlantshaf til Þýskalands og austurhluta Evrópu er ætlunin að láta reyna á samvinnu og samstarfshætti herja landanna beggja vegna Atlantshafs. Hvati að æfingunni er ótti NATO-ríkja í austurhluta Evrópu við ögrandi framgöngu Rússa í nágrenni við sig.
Í samtali við þýsku fréttastofuna DW segir Claudia Major, öryggis- og varnarmálafræðingur við þýsku öryggis- og alþjóðamálastofnunina SWP að innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 hafi „vakið“ Evrópumenn.
„Sú skipan öryggismála sem Evrópuþjóðir töldu sig eiga sameiginlega með Rússum var úr sögunni. Rússar voru ekki lengur strategískir samstarfsmenn. Evrópumenn verða að nýju að svara spurningunni: „Hvernig verjumst við sjálfir í Evrópu?“
Þýski hershöfðinginn Martin Schelleis sem stjórnar samstarfshópi þýska hersins segir á hinn bóginn að ekki eigi að líta á Defender Europe 20 sem einskonar ögrun við Rússa.
„Rússar eru ekki hvatinn að þessari æfingu, aðeins er unnt að endurvekja hernaðarmátt og viðhalda honum með langvinnum aðgerðum,“ segir hann.
Landafræðin leiðir til þess að mestur hluti tækjanna sem fluttur verður úr höfnum Evrópu austur á bóginn fer um vegi og járnbrautarteina Þýskalands. Þýsk og bandarísk yfirvöld leggja ríka áherslu á að herflutningarnir raski sem minnst daglegu lífi í Þýskalandi og þess vegna verða þeir væntanlega að næturlagi.
„Gangi allt að óskum verður enginn var við neitt,“ segir Schelleis. Aðgerðir miði að því að láta reyna á boðleiðir og stjórn vegna svo umfangsmikilla flutninga.
Megintilgangur æfinganna er að láta reyna á flutningakerfin og mannvirki sem nýtt eru þegar um svo mikið af hergögnum og hermönnum streyma á skömmum tíma til Póllands og Eystrasaltsríkjanna.