Home / Fréttir / Þýskaland: Ríkisstjórn stóru flokkana fallin – Merkel áfram næsti kanslari

Þýskaland: Ríkisstjórn stóru flokkana fallin – Merkel áfram næsti kanslari

Forystumenn AfD fagna sigri.
Forystumenn AfD fagna sigri.

Kristilegu flokkarnir töpuðu miklu fylgi í þýsku sambandsþingskosningunum þótt flokkarnir CDU/CSU séu enn stærstir á þingi með stuðningi um 33% kjósenda. Jafnaðarmenn (SPD) fengu verstu útreið í þingkosningum frá stríðslokum með aðeins um 20% atkvæði. Þjóðernisflokkurinn Alternativ für Deutschland er sigurvegari kosninganna með um 13% atkvæða. Frjálsir demókratar fengu um 10% atkvæða, litlu minni eru Græningjar.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu þýska sambandslýðveldisins sem flokkur hægra megin við kristilegu flokkana fær sæti á sambandsþinginu. Sigur AfD má rekja til ágreinings um útlendingastefnuna sem Angela Merkel hefur fylgt og leiddi til þess að um milljón farand- og flóttafólks hefur komið til Þýskalands síðan 2015.

Tvær leiðir eru til meirihlutastjórnar í Þýskalandi, (1) að stóru flokkarnir CDU/CSU og SPD starfi áfram saman, (2) að CDU/CSU verði í þriggja flokka stjórn með FDP og Græningjum.

Fyrri kosturinn er ekki fyrir hendi þar sem SPD-forystan hefur ákveðið að standa utan stjórnar meðal annars með þeim orðum að koma verði í veg fyrir að AfD verði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Í umræðum leiðtoga flokkanna í sjónvarpi eftir að úrslitin voru kunn átti Martin Schulz, kanslaraefni SPD, erfitt með að leyna reiði sinni í garð Merkel og sagði hana hafa beðið mesta ósigur í kosningunum með því að tapa um 8 stigum en SPD tapaði um 5 stigum.

Merkel var spurð hvort þetta hefði áhrif á stöðu hennar innan flokksins. Hún sagðist vera kanslari og á hennar herðum hvíldi sem leiðtoga stærsta flokksins að tryggja landinu stjórn. SPD-menn ætla að sitja í starfsstjórn með Merkel þar til ný stjórn verður myndið. Þrátt fyrir reiði Schulz er ekki unnt að útiloka að flokkarnir ákveði að starfa áfram saman.

Í Þýskalandi tala menn um „Jamaíka-lausn“ þegar rætt er um þriggja flokka stjórn CDU/CSU, FDP og Græningja vegna þess að litir flokkanna, svartur, gulur og grænn eru þeir sömu og í þjóðfána Jamaíka.

Stjórnmálaskýrendur segja að erfitt væri að mynda „Jamaíka-stjórn“ vegna óvildar milli FDP og Græningja sem róa á sömu mið í leit að kjósendum. Keppinautar eigi oft erfitt með að sitja eða starfa saman.

Þótt gerðar hafi verið tilraunir til að draga úr ágreiningi milli flokkanna bera þær skammvinnan árangur. Græningjar lýsa Christian Lindner, formanni FDP, gjarnan sem Porsche-spjátrungi en af hálfu FDP er dregin sú mynd af Græningjum að þeir séu sjálfumglaðir alvitringar sem skreyti sig með ofurást sinni á náttúrunni.

FDP á rætur aftur til 1948 og hefur flokkurinn löngum verið sá þriðji stærsti á þýska þinginu. Hann hefur tekið sér sæti á miðjunni og tekið þátt í samsteypustjórnum til hægri og vinstri.

Græningjar náðu sér á strik undir lok áttunda áratugarins og fékk flokkurinn menn á sambandsþingið árið 1983 í fyrsta sinni. Þeir ógnuðu þar stöðu FDP frá vinstri en FDP færði sig yfir til hægri, flokkurinn sagði skilið við Helmut Schmidt kanslara SPD og gekk til samstarfs við Helmut Kohl, leiðtoga kristilegra. Litið var á FDP sem flokk viðskiptalífsins gegn öflugu ríkisvaldi en Græningja sem ríkisafskiptaflokk í þágu umhverfisins.

Innan FDP hafa menn átt erfitt með að fyrirgefa atvik eftir sambandsþingkosningarnar árið 2013 þegar FDP féll undir 5% þröskuldinn og Græningjar fögnuðu ákaft í beinni sjónvarpsútsendingu þegar ljóst varð að engir FDP-menn yrðu á þinginu í Berlín.

Eftir sambandslandskosningar í Schleswig-Holstein fyrr á árinu var mynduð „Jamaíka-stjórn“ þar. Stjórnmálafræðingar útiloka ekki að slík stjórn verði mynduð undir forystu Angelu Merkel.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …