Home / Fréttir / Þýskaland: Merkel-stjórnin á mjög undir högg að sækja

Þýskaland: Merkel-stjórnin á mjög undir högg að sækja

 

Angela Merkel, Horst Seehofer, Andrea Nahles.
Angela Merkel, Horst Seehofer, Andrea Nahles.

Ríkisstjórn Angelu Merkel í Þýskalandi nýtur nú 41% stuðnings meðal Þjóðverja megi marka niðurstöður skoðanakannanna. Kristilegu flokkarnir (CDU/CSU) njóta stuðnings 26% en Jafnaðarmannaflokkinn segjast 15% styðja. Af stjórnarandstöðuflokkunum njóta græningjar mesta fylgis.

Niðurstöður í reglulegri könnun Deutschlandtrend var birt fimmtudaginn 11. október, þremur dögum fyrir sambandslandskosningar í Bæjaralandi, heimalandi CSU sem ávallt hefur notið þar mikils fylgis sem minnkar nú.

Stjórnarflokkarnir þrír hafa tapað þremur prósentustigum miðað við sambærilega könnun í september.

Græningjar sækja í sig veðrið og eru í öðru sæti á eftir kristilegum með 17%. Allt bendir til þess að græningjar fái næst mest fylgi í Bæjaralandi á eftir CSU í kosningum á sambandslandsþingið sunnudaginn 14. október. Horst Seehofer, innanríkisráðherra í stjórn Merkel, er leiðtogi CSU þótt hann sé ekki í framboði sem forsætisráðherraefni þeirra.

Græningjar sitja nú í sambandslandsstjórnum Baden-Württemberg og Hessen, þar sem kosið verður til sambandslandsþingsins 28. október.

Könnunin sýnir SPD í fjórða sæti meðal flokkanna á sambandsþinginu í Berlín. Fyrir ofan þá eru græningjar eins og áður er getið og Alternative für Deutschland (AfD) sem sækir fylgi sitt einkum til þeirra sem eru ósáttir við útlendingastefnuna sem Merkel mótaði árið 2015 og kallað hefur á mikinn fjölda erlends aðkomufólks í Þýskalandi. AfD mælist nú með 16% fylgi.

Jafnaðarmenn fá 15%, leiðtogi þeirra er Andrea Nahles. Bæði Die Linke, fyrrv. kommúnistar, og Frjálsir demókratar (FDP) mælast með um 10%.

Kosið var til sambandsþingsins undir lok september 2017 en Merkel tókst ekki að endurnýja samstarf sitt við SPD og mynda stjórn fyrr en í mars 2018. Nú kenna 56% Merkel um ófarir stjórnar hennar, 31% Seehofer, harðlínumanni í útlendingamálum, og aðeins 2% Andreu Nahles.

Um 76% segjast almennt óánægðir með störf stjórnarinar undir forystu Merkel.  Miklar umræður hafa verið um dísel-hneyksli tengt þýskum bílaframleiðendum og segja 82% að stjórn Merkel hafi þar staðið sig illa. Þá gagnrýna 79% framgöngu Merkel-stjórnarinnar í húsnæðismálum og 74% í loftslagsmálum.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …