Home / Fréttir / Þýskaland: Merkel heldur fast við flóttamannastefnuna en eykur öryggisráðstafanir vegna aðkomumanna

Þýskaland: Merkel heldur fast við flóttamannastefnuna en eykur öryggisráðstafanir vegna aðkomumanna

Angela Merkel kemur á blaðamannafund í Berlín.
Angela Merkel kemur á blaðamannafund í Berlín.

 

Angela Merkel Þýskalandskanslari gerði hlé á sumarleyfi sínu og flýtti árlegum sumar-blaðamannafundi sínum um einn mánuð fimmtudaginn 28. júlí þegar hún ræddi við blaðamenn í Berlín vegna hryðjuverkanna sem unnin hafa verið í Þýskalandi undanfarið.

Kanslarinn varði stefnu sína frá því í fyrra gagnvart flótta- og farandfólki þegar hún í raun opnaði landamæri Þýskalands og meira en milljón aðkomumenn streymdu til landsins. Hún hefði aldrei sagt að auðvelt yrði að framkvæma stefnu sína. Nú blasti hins vegar við barátta gegn Daesh (Ríki íslams), „þar er að mínu áliti um stríð að ræða“, sagði Merkel.

Jafnframt kynnti hún áætlun í níu liðum til að auka öryggi í Þýskalandi: Stofnuð verður deild innan lögreglunnar til að ráða i dulkóðuð netsamskipti milli hugsanlegra árásarmanna og hryðjuverkahópa. Starfsliði verður fjölgað í þýskum njósnastofnunum. Komið verður á fót einni skrá yfir þá sem koma til landsins og yfirgefa það. Auðveldara verður að flytja lögbrjóta í hópi hælisleitenda úr landi. Lögregla og her efna til reglulegra æfinga um sameiginleg viðbrögð komi til hryðjuverks. Komið verður upp „greiningar- og viðvörunarkerfi“  til að fylgjast með öfgahyggju meðal aðkomufólks.

Frá 18. júlí hafa nokkrar árásir verið gerðar á almenna borgara í Þýskalandi, 10 hafa fallið og á fimmta tug manna særst. Ungur Afgani réðst á lestarfarþega með exi, Sýrlendingur drap konu með sveðju og annar Sýrlendingur sprengdi sig í loft upp fyrir utan veitingastað. Í München felldi Þjóðverji af írönskum ættum níu manns í skotárás á skyndibitastað.

Merkel sagði að þessir atburðir auk nýlegra atburða í Frakklandi og Tyrklandi hefðu rofið „helgi siðmenningarinnar“ af því að þeir „gerðust á stöðum þar sem hvert okkar hefði getað verið,“ sagði Merkel.

Merkel vék sérstaklega orðum að hryðjuverkum sem tveir hælisleitendur unnu í Bæjarlandi. Hún sagði að árásarmennirnir hefðu „svívirt þjóðina sem tók á móti þeim“ með því að nota tíma sinn í Þýskalandi til að undirbúa og framkvæma árás á saklausa borgara. Merkel sagði: „Með þessu lítilsvirða þeir þá sem hafa veitt þeim aðstoð og þeir lítilsvirða einnig aðra hælisleitendur sem í raun leita skjóls undan ofbeldi og stríði“.

Kristilegir sósíalistar (CSU) fara með stjórn Bæjarlands þeir eru  bræðraflokkur kristilegra demókrata (CDU) flokks Merkel. Horst Seehofer, formaður CSU, hefur hvatt Merkel og stjórn hennar til að grípa til harðari öryggisráðstafana vegna fjölda aðkomumanna.

Fyrsta sjálfsmorðssprengjuárásin í Þýskalandi var gerð í Ansbach í Bæjarlandi án þess að granda öðrum en tilræðismanninum. Eftir árásina sagði Seehofer: „Allar spár okkar hafa reynst réttar.“ Hann vísaði þar til viðvörunarorða sem hann hefur haft vegna stefnu Merkel í málefnum flótta- og farandfólks.

Forráðamenn CSU og CDU virtust fyrir nokkrum vikum hafa náð samkomulagi um aðgerðir í útlendingamálum en eftir atburði síðustu daga hefur skapast spenna að nýju á milli þeirra vegna málsins.

Thomas Jahn, varaformaður CSU, lét þau orð falla á dögunum að stjórnmálamenn hefðu kallað „martröð“ yfir Þýskaland og Bæjarland þar sem einstaklingar óttuðust að þeir gætu orðið „næsta fórnarlamb hryðjuverks í landi okkar“, sagði hann. „Við verðum að auka heimildir lögreglu okkar,“ sagði Jahn. „Við verðum að senda útlendinga mjög hratt til landa þeirra, til að bjarga lífi okkar og bjarga öryggi lands okkar.“

Blaðamannafundur Merkel kallaði föstudaginn 29. júlí fram harða gagnrýni á hana meðal annars frá Markus Söder (CSU), fjármálaráðherra Bæjarlands. Hann sagði að kanslarinn hefði ekki sannfært sig. Hann sagði:

„Það er og verða söguleg mistök að hafa opnað landamærin án skilyrða og eftirlits. Hægt og bítandi verður öllum það ljóst.  Við höfðum rétt fyrir okkur – því miður. Við hefðum getað sparað okkur mikið, hefði fyrr verið hlustað á okkur.“

Söder gagnrýndi sérstaklega að á blaðamannafundinum hefði Merkel endurtekið umdeilda setningu sína frá í fyrra: Wir schaffen das. (Okkur tekst það.). Það væri ekki rétta slagorðið á þessari stundu. „Maður réttlætir ekki setninguna með að endurtaka hana,“ sagði Söder. Með þessum orðum væri einfaldlega gengið „of skammt“. Í stað þeirra þyrftu að koma markvissar aðgerðir.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi níu-punkta aðgerðaáætlun Merkel. Hún væri of óljós. Anton Hofreiter, þingflokksformaður græningja, sagði að Merkel hefði látið hjá líða að kynna skýran boðskap sem þjóðin vissi að kæmi til framkvæmda á næstunni

.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …