Home / Fréttir / Þýskaland: Meirihlutinn vill herskyldu að nýju

Þýskaland: Meirihlutinn vill herskyldu að nýju

index

 

Um þessar mundir ræða Þjóðverjar hvort innleiða eigi herskyldu að nýju en frá henni var horfið árið 2011 vegna sparnaðar í ríkisrekstri.

Í blaðinu Die Welt birtist þriðjudaginn 7. ágúst niðurstaða könnunar sem sýndi að 55,6% vilja að herskylda verði tekin upp að nýju. Þá segja 60,8% að herskyldan eigi að vera í eitt ár fyrir karla og konur.

Afstaðan er breytileg eftir aldri svarenda. Stuðningurinn er minnstur við herskylduna í aldurshópnum 18 til 29 ára, það er í þeim hópi þar sem kallað yrði á fólk til herþjónustu, þar eru stuðningsmenn 39% en andstæðingar 54,3%. Í öllum öðrum aldurshópum er stuðningur við herskyldu yfirgnæfandi. Hjá þeim sem eru eldri en 65 ára er stuðningurinn 68,9%. Segir blaðið augljóst að afar og ömmur telji barnabörn sín hafa gott af þjónustu við land sitt og þjóð í hernum.

Mestur er stuðningurinn meðal kjósenda hægriflokksins AfD, 73,8%, hjá kristilegum (CDU/CSU) er hann 71,5%, hjá Frjálsum demókrötum (FDP) 57,7%, jafnaðarmönnum (SPD) 55,8%. Meðal græningja eru 46,7% gegn innleiðingunni, 44,4% með henni og meðal kjósenda vinstri flokksins Linke eru 54,2% gegn en 40,3% með.

Sé skipting eftir kyni skoðuð eru 60,3% karla með herskyldu og 61,4% kvenna. Eftir landshlutum er skipting sú að í vesturhluta Þýskalands vilja 59% herskyldu en 61,3% í austurhlutanum.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …