
Martin Schulz, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna (SPD), tilkynnti föstudaginn 9. febrúar að hann ætlaði ekki að sækjast eftir ráðherraembætti í næstu ríkisstjórn Þýskalands. Hann hafði verið orðaður við embætti utanríkisráðherra og látið í ljós áhuga á að gegna því. Hefur hann sætt mikilli gagnrýni innan flokks síns fyrir að lýsa þessum áhuga sínum á embættinu eftir að samkomulag náðist um framhald stjórnarsamstarfs kristilegra og jafnaðarmanna undir forsæti Angelu Merkel (CDU).
Schulz sagðist óttast að deilur innan raða SPD vegna ráðherrasetu sinnar kynnu að koma í veg fyrir að flokksmenn samþykktu í allsherjaratkvæðagreiðslu að SPD yrði áfram við stjórnvölinn með kristilegum. Talið er að Schulz láti nú af forystu í flokknum og við henni taki Andrea Nahles, fráfarandi vinnumálaráðherra, og hún verði fyrsta konan til að leiða SPD.
Sigmar Gabriel, fyrrv. leiðtogi SPD, og núverandi utanríkisráðherra gagnrýndi Schulz fyrir að tala á þann veg að hann yrði utanríkisráðherra. Gabriel kvartaði undan því í blaðaviðtali föstudaginn 9. febrúar að störf sín sem utanríkisráðherra væru lítils metin af Schulz þótt hann nyti stuðnings fyrir þau meðal almennings.
„Því miður er ljóst að viðurkenning almennings á störfum mínum var einskis metin innan forystu SPD,“ sagði Gabriel.
Strax sama dag og úrslit kosninganna lágu fyrir 24. september 2017 afskrifaði Schulz með öllu aðild að ríkisstjórn með kristilegu flokkunum CDU/CSU undir forystu Merkel. Hann tók sérstaklega fram að hann yrði ekki í stjórn með henni. Kúvending hans miðvikudaginn 7. febrúar þegar hann fagnaði myndun stjórnar undir forsæti Merkel vakti reiði margra innan SPD ekki síst ungliðahreyfingarinnar, Jusos, sem lýsa andstöðu við aðild að stjórn með Merkel.
Eftir að Schulz hafði kynnt ákvörðun sína sagði Andrea Nahles, líklegur arftaki hans innan SPD, að hún „bæri mikla virðingu“ fyrir niðurstöðu hans. Innan stjórnarandstöðuflokkanna lýstu ýmsir undrun yfir framvindu mála innan SPD og að þrýst hefði verið á Schulz á þann veg sem gert var.
Fyrir einu ári var Schulz einróma kjörinn leiðtogi flokksins. Hann naut þá mikilla vinsælda í skoðanakönnunum en síðan tapaði flokkurinn í mörgum sambandslandskosningum og fékk að lokum ekki nema 20,5% atkvæða í sambandsþingkosningunum í september 2017, verstu útreið sína eftir síðari heimsstyrjöldina.