Kristilegir demókratar (CDU) í Þýskalandi tilkynntu mánudaginn 24. febrúar að þeir myndu efna til landsfundar 25. apríl og kjósa nýjan flokksformann og þar með eftirmann Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Sunnudaginn 23. febrúar hlaut CDU verstu útreið sína í kosningum í Hamborg. Er litið á niðurstöðuna þar sem refsingu fyrir að flokkurinn daðraði við AfD-flokkinn hægra megin við sig í Thüringen í austurhluta Þýskalands.
Vandræði flokksins í sambandslandinu Thüringen fyrr nú í febrúar urðu til þess að Annegret Kramp-Karrenbauer flokksformaður sagði óvænt af sér, hún ætlaði sér ekki lengur að feta í fótspor Merkel. Kramp-Karrenbauer sagði þegar hún boðaði til landsfundarins 25. apríl að þar veldu flokksmenn formann sem yrði tvímælalaust kanslaraefni flokksins í þingkosningunum haustið 2021.
Þrír frambjóðendur að minnsta kosti verða í kjöri á landsfundinum. Þeir eru Armin Laschet, forsætisráðherra í fjölmennasta sambandslandi Þýskalands, Nordrhein-Westfalen; Friedrich Merz sem tapaði naumlega fyrir Kramp-Karrenbauer í formannskjörinu 2018 og Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar sambandsþingsins.
Jafnaðarmenn (SPD) samstarfsmenn Merkel í sambandsstjórninni gefa til kynna að hætti hún sem kanslari slíti þeir stjórnarsamstarfinu. Merz sem tapaði fyrir Merkel á sínum tíma kynni að krefjast afsagnar hennar sem kanslari yrði hann kjörinn formaður CDU.
Kramp-Karrenbauer hefur lagt áherslu á að sigurvegari í formannskjörinu verði að vinna áfram með Merkel sem kanslara og þingflokki CDU.
Í Thüringen ákvað flokksdeild CDU þar að greiða atkvæði með AfD til að tryggja manni úr þriðja flokknum sæti forsætisráðherra í sambandslandsstjórninni þar. Með því var brotið gegn samstöðu gamalgrónu þýsku meginflokkanna eftir síðari heimsstyrjöldina um að skipa sér ekki við hlið flokks sem talinn er langt til hægri.
Í Hamborg hlaut CDU aðeins 11,2% atkvæða og lenti í þriðja sæti á eftir SPD sem jafnan hefur haft sterka stöðu í borginni og Græningjum.
Fjöldablaðið Bild lýsti útkomu CDU í Hamborg sem „hrikalegri“. Flokkurinn sætir ekki aðeins gagnrýni vegna uppnámsins í Thüringen heldur einnig vegna þess að nú hallar undan fæti í þýsku efnahags- og atvinnulífi.