Home / Fréttir / Þýskaland: Kristilegir stóðust áhlaup AfD í Sachsen-Anhalt

Þýskaland: Kristilegir stóðust áhlaup AfD í Sachsen-Anhalt

Svona var kosningaauglýsing AfD útleikin fyrir kjördag.

Útgönguspár gefa til kynna að Kristilegir demókratar (CDU) verði áfram stærsti stjórnmálaflokkurinn í þýska sambandslandinu Sachsen-Anhalt þar sem gengið var til þingkosninga sunnudaginn 6. júní. Flokkurinn stóð af sér áhlaup flokksins Alternative für Deutschland (AfD) frá hægri.

Litið er á úrslit kosninganna í sambandslandinu sem mikilvæga vísbendingu um gengi flokka í kosningum til þýska sambandsþingsins í september 2021. AfD hafði verið spáð góðu gengi í kosningunum.

Útgönguspár sýna að fylgi CDU verði 35,9%, AfD verði í öðru sæti með 22,7%. Vinstri flokkurinn Linke fái 10,9% og Jafnaðarmannaflokkurinn (SDP) fái 8,3%, Græningjar 6,5% og Frjálsir demókratar 6,4%.

Stjórnmálaskýrendur segja þetta magnaðan sigur flokks Angelu Merkel, CDU. Tekist hafi að stöðva sókn AfD.

Paul Ziemiak, framkvæmdastjóri CDU, sagði úrslitin „einstaklega góð“ fyrir flokk sinn.

Martin Reichardt, formaður AfD í Sachsen-Anhalt, sagðist telja flokk sinn geta „mjög vel við úrslitin unað“.

Sachsen-Anhalt var áður í Austur-Þýskalandi. Nú stjórna CDU-menn þar í samvinnu við SPD og Græningja. Hafa forystumenn beggja samstarfsflokka CDU sagt að þeir vilji halda þriggja flokka samstarfinu áfram.

Annalena Baerbock, kanslaraefni Græningja í þingkosningunum í september, lýsti óánægju með úrslit kosninganna. Flokkur sinn hefði vonað að njóta meiri stuðnings í Sachsen-Anhalt. Græningjar sækja í sig veðrið annars staðar í Þýskalandi og Baerbock er nú ein þeirra sem talin geta orðið kanslari eftir september-kosningarnar.

Oddviti FDP í Sachsen-Anhalt, Lydia Hüskens, sagði að hún væri „mjög bjartsýn“ um að flokkur hennar yrði aðili að stjórn sambandslandsins.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …