Home / Fréttir / Þýskaland: Kristilegir stóðust áhlaup AfD í Sachsen-Anhalt

Þýskaland: Kristilegir stóðust áhlaup AfD í Sachsen-Anhalt

Svona var kosningaauglýsing AfD útleikin fyrir kjördag.

Útgönguspár gefa til kynna að Kristilegir demókratar (CDU) verði áfram stærsti stjórnmálaflokkurinn í þýska sambandslandinu Sachsen-Anhalt þar sem gengið var til þingkosninga sunnudaginn 6. júní. Flokkurinn stóð af sér áhlaup flokksins Alternative für Deutschland (AfD) frá hægri.

Litið er á úrslit kosninganna í sambandslandinu sem mikilvæga vísbendingu um gengi flokka í kosningum til þýska sambandsþingsins í september 2021. AfD hafði verið spáð góðu gengi í kosningunum.

Útgönguspár sýna að fylgi CDU verði 35,9%, AfD verði í öðru sæti með 22,7%. Vinstri flokkurinn Linke fái 10,9% og Jafnaðarmannaflokkurinn (SDP) fái 8,3%, Græningjar 6,5% og Frjálsir demókratar 6,4%.

Stjórnmálaskýrendur segja þetta magnaðan sigur flokks Angelu Merkel, CDU. Tekist hafi að stöðva sókn AfD.

Paul Ziemiak, framkvæmdastjóri CDU, sagði úrslitin „einstaklega góð“ fyrir flokk sinn.

Martin Reichardt, formaður AfD í Sachsen-Anhalt, sagðist telja flokk sinn geta „mjög vel við úrslitin unað“.

Sachsen-Anhalt var áður í Austur-Þýskalandi. Nú stjórna CDU-menn þar í samvinnu við SPD og Græningja. Hafa forystumenn beggja samstarfsflokka CDU sagt að þeir vilji halda þriggja flokka samstarfinu áfram.

Annalena Baerbock, kanslaraefni Græningja í þingkosningunum í september, lýsti óánægju með úrslit kosninganna. Flokkur sinn hefði vonað að njóta meiri stuðnings í Sachsen-Anhalt. Græningjar sækja í sig veðrið annars staðar í Þýskalandi og Baerbock er nú ein þeirra sem talin geta orðið kanslari eftir september-kosningarnar.

Oddviti FDP í Sachsen-Anhalt, Lydia Hüskens, sagði að hún væri „mjög bjartsýn“ um að flokkur hennar yrði aðili að stjórn sambandslandsins.

 

Skoða einnig

Norski herinn fylgist náið með spennunni við Úkraínu

Eirik Kristoffersen, yfirmaður norska heraflans, sagði við fréttastofuna NTB föstudaginn 22. janúar að hann teldi …