Home / Fréttir / Þýskaland: Jafnaðarmenn samþykkja aðild að stjórn með Merkel

Þýskaland: Jafnaðarmenn samþykkja aðild að stjórn með Merkel

Andrea Nahles og Olaf Scholz, leiðtogar SPD.
Andrea Nahles og Olaf Scholz, leiðtogar SPD.

Félagar í þýska Jafnaðarmannaflokknum (SPD) samþykktu með 66% atkvæða gegn 34% að halda áfram stjórnarsamstarfi sínu við kristilegu flokkana CDU og CSU. Angela Merkel Þýskalandskanslari (CDU) myndar því fjórða ráðuneyti sitt síðan 2005 innan tveggja vikna. Stjórnarkreppa hefur verið í rúma fimm mánuði í Þýskalandi eða síðan kosið var til sambandsþingsins 24. september 2017.

Efnt var til póstatkvæðagreiðslu um stjórnarsamstarfið meðal um 460.000 félaga í SPD. Atkvæðamunurinn var meiri en margir væntu.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir SPD,“ sagði Olaf Scholz, starfandi flokksformaður. „Við höfum færst nær hver öðrum í stjórnarmyndunarviðræðunum. Það gefur okkur styrk til að vinna að þeirri endurnýjun sem nú hefst.“

Næsta skref verður að fulltrúar flokkanna rita undir stjórnarsáttmálann og síðan kýs neðri deild þýska þingsins, Bundestag, Angelu Merkel sem kanslara. Talið er líklegt að atkvæðagreiðslan verði miðvikudaginn 14. mars. Þetta er þriðja samsteypustjórn Merkel með SPD. Áður en stjórnarsamstarf stóru flokkanna var endurnýjað reyndi Merkel að mynda stjórn með Græningjum og Frjálsum demókrötum (FPD).

Martin Schulz, fyrrverandi leiðtogi SPD, vildi upphaflega ekki halda áfram samstarfinu við Merkel en neyddist til að segja af sér eftir að hafa kúvent í afstöðu sinni. Til að ná samkomulagi varð Merkel að afhenda SPD lykilembætti fjármálaráðherra.

Kristilegir hafa þegar tilnefnt ráðherraefni sín í nýju ríkisstjórninni. Þess er vænst að SPD tilefni menn í sex ráðuneyti sín í vikunni. Boðað hefur verið að það verði þrjár konur og þrír karlar.

Andrea Nahles, líklegur næsti formaður SPD, og Olaf Scholz, starfandi formaður, hvöttu til þess að félagar í SPD samþykktu stjórnarsamstarfið. Helsti andstæðingur þess var Kevin Kühnert, formaður ungliðahreyfingar flokksins.

Áður en atkvæðagreiðslan hófst lofaði Kühnert að hann og samherjar hans virtu niðurstöðu hennar og þeir ættu samstarf við flokksforystuna ef flokksmenn veittu stefnu hennar brautargengi.

Forystumenn flokksins sögðu að þegar fram liðu stundir ætti Kühnert að gegna mikilvægara hlutverki innan SPD, þeim væri ljóst að innan flokksins gætti óánægju meðal margra vegna stefnu flokksins.

„Við áttum okkur á þeirri viðvörun sem birtist í atkvæðagreiðslunni, við verðum að gera umbætur,“ sagði Ralf Stegner, varaformaður SPD.

 

Heimild: DW

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …