Home / Fréttir / Þýskaland: Jafnaðarmenn búa sig undir framhald stjórnarsamstarfs við Kristilega

Þýskaland: Jafnaðarmenn búa sig undir framhald stjórnarsamstarfs við Kristilega

Frank-Walter Steimeier Þýskalandsforseti ræðir við Martin Schulz, leiðtoga SPD.
Frank-Walter Steimeier Þýskalandsforseti ræðir við Martin Schulz, leiðtoga SPD.

Þýskir Jafnaðarmenn (SPD) velta nú fyrir sér hvort þeir eigi að halda áfram stjórnarsamstarfi við Kristilega (CDU/CSU) undir forsæti Angelu Merkel. Frank-Walter Steinmeier, fyrrv. forystumaður SPD nú forseti Þýskalands, ræddi í rúma klukkustund við Martin Schulz, leiðtoga SPD, síðdegis fimmtudaginn 23. nóvember um framhald samstarfs stóru þýsku stjórnmálaflokkanna í ríkisstjórnin.

Stjórnarkreppan í Þýskalandi tók nýja stefnu að kvöldi sunnudags 19. nóvember þegar Frjálsir demókratar (FDP) slitu stjórnarmyndunarviðræðum við Kristilega og Græningja. Angela Merkel lýsti þá vilja til að efna að nýju til þingkosninga tækist ekki að mynda stjórn. Steinmeier forseti lagðist gegn kosningum og tók að ræða við forystumenn flokkanna. Forsetinn er sagður áhugasamur um að stóru þýsku flokkarnir starfi áfram saman.

Eftir fundinn með forsetanum sagði Schulz að hann mundi ræða stöðuna við samstarfsmenn sína í forystu SPD. Kristilegir segja að dyr þeirra standi opnar fyrir SPD.

Engar fréttir hafa borist af því hvað þeim Steinmeier og Schulz fór á milli en í þýskum blöðum geta menn sér þess til að forsetinn hafi hvatt leiðtoga SPD til að íhuga stjórnskipulega ábyrgð SPD og hvað felist í að eiga áfram samstarf við CDU/CSU.

SPD hlaut illa útreið í þingkosningunum 24. september, aðeins 20,5% atkvæða. Í ljósi úrslitanna sagði Schulz að flokkurinn yrði utan ríkisstjórnar og mundi láta að sér kveða í stjórnarandstöðu. Eftir slit stjórnarmyndunarviðræðnanna 19. nóvember hefur heit umræða um stjórnaraðild orðið innan SPD og er jafnvel talið að hún kunni að skaða stöðu Schulz meðal flokksmanna sýni hann ekki sveigjanleika. SPD hefur boðað til þriggja daga landsfundar í Berlín 7. desember og þar verður forystusveit flokksins valin.

Áður en Schulz fór til fundar við Steinmeier fullvissaði hann fjölmiðlamenn um að flokkur sinn ætlaði að leggja sitt af mörkum til að tryggja stöðuga ríkisstjórn. „SPD gerir sér fyllilega ljóst hvaða ábyrgð hvílir á flokknum við þessar erfiðu aðstæður,“ sagði hann miðvikudaginn 22. nóvember við fréttastofuna Deutschen Presse-Agentur (DPA). „Ég er viss um að á næstu dögum og vikum finnum við góða lausn fyrir land okkar.“

Fimmtudaginn 23. nóvember taldi DPA að innan SPD vildu menn komast fljótt að niðurstöðu um næstu skref að loknum fundi Steinmeiers og Schulz. Ekki ætti að útiloka neinn kost í stöðunni heldur meta hvern þeirra á yfirvegaðan hátt. Mestu skipti þó að skapa ró innan flokksins með því að taka markvisst á málum.

Varaformaður þingflokks SPD, Karl Lauterbach, fulltrúi vinstri arms flokksins, sagði fimmtudaginn 23. nóvember við sjónvarpsstöðina ZDF að væri enginn annar kostur fyrir hendi útilokaði SPD ekki framhald samstarfs við Kristilega. Kæmi til þess yrði að ræða ítarlega um félagslegan þátt stjórnarsáttmála.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …